Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kona fótbrotnaði í grennd við Emstrur

Mynd með færslu
 Mynd: Landmælingar Íslands
Björgunarsveitir og landhelgisgæslan voru kallaðar út rétt upp úr tíu í morgun vegna göngukonu á Laugaveginum sem hafði hrasað og brotnað illa, líklega á ökkla. Konan var í gönguhóp og því ekki ein á ferð.

Einnig var hópur björgunarsveitarfólks sem tilheyrir hálendisvakt nálægt og hlúði að konunni. Hún var flutt á heppilegan lendingarstað fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar við skála Ferðafélagsins á Emstrum. Í fyrstu var tvísýnt hvort hægt væri að lenda vegna aðstæðna þannig að björgunarsveitir á Suðurlandi voru einnig kallaðar út.

Þegar þyrlan kom á staðinn um hálf tólf var konan komin á lendingarstað þannig að læknir gat hlúð að henni samstundis. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarstörf hafa gengið vel miðað við aðstæður, en einhver þoka var á svæðinu. Hún var flutt með þyrlunni til Reykjavíkur til aðhlynningar.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV