Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrstu sólarlandaferðirnar fara af stað

11.07.2020 - 12:21
Brá Guðmundsdóttir og Guðjón 11. júlí 2020
 Mynd: RÚV fréttir
Íslendingar á leið í fyrstu sólarlandaferðirnar eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst virðast mjög meðvitaðir um sóttvarnir og hvað beri að varast. Íslensk kona búsett í Danmörku óttast að fólk sé orðið full kærulaust gagnvart faraldrinum og segist öruggari hér en í Danmörku.

Það er smám saman að færast líf yfir flugstöð Leifs Eiríkssonar þótt það sé ekkert í samanburði við laugardagsmorgna í júlí síðustu ár. Í morgun fóru á annað hundrað Íslendingar með VITA í  vél Icelandair til Tenerife og fullbókað er í flug félagsins til Alicante á mánudaginn.

Þá er til dæmis flogið fjórum sinnum í dag til Kaupmannahafnar og þaðan heldur fólk áfram og margir í sólina. Það var ekki annað að sjá í Leifsstöð í morgun en að fólk fari varlega, margir eru með andlitsgrímur en alls ekki allir, fólk sprittar hendur og virðir fjarlægðarmörk. Ferðalangar mæta klifjaðir í flugstöðina, vel útbúnir fyrir flugferðina. Margir á leið í sól og sumaryl og langþráð stund á sundlaugarbakkanum framundan.

Meðal þeirra eru Brá Guðmundsdóttir og Guðjón Kristjánsson. Þau voru á leið til Tenerife í morgun.

Hvernig leggst þetta í ykkur? „Bara vel maður er samt eitthvað svolítið öðruvísi en venjulega.“

Eruð þið hrædd við covid? „Nei ég er það ekki, við bara pössum okkur á smitvörnunum okkar og sprittum og þvoum hendur og svona og erum svosem ekkert innanum og nálægt fólki þannig að nei nei við erum ekkert hrædd við þetta.“ 

Helga Björnsdóttir var sömuleiðis á leið þangað spennt að komast í frí.

Helga Björnsdóttir, 11. júlí 2020.
 Mynd: RÚV fréttir
Helga Björnsdóttir

Hvernig leggst þetta í þig? „Mjög vel.“

Ekkert hrædd við covid? „Nei nei ég er með grímu og hanska og spritt og já allar græjur.“

Leifsstöð 11. júlí 2020
 Mynd: RÚV fréttir
Guðrún Ólafsdóttir

Guðrún Ólafsdóttir hefur búið í Danmörku í 13 ár og var í morgun ásamt fjölskyldu sinni á leið aftur út eftir tveggja vikna dvöl hér á landi. Við spurðum hana hvernig henni litist á ástandið hér samanborið við Danmörku.

„Mér finnst fólk gleyma því bæði hér og í Danmörku eins og þetta sé svona svolítið búið fólk stendur of nálægt hvort öðru í röðum þannig að maður er svon ahhh ég er svona meira örugg, meira ok með það hér vegna þess að við vorum jú testuð og útlendingar sem koma inní landið eru testaðir áður en þeir komast inní landið eða eiga að fara í sóttkví, í Danmörku er það ekki þannig.“