Fáir farþegar í fyrsta skemmtiferðaskipi sumarsins

11.07.2020 - 20:50
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Um þrjátíu farþegar fyrsta skemmtiferðaskips sumarsins komu til landsins með leiguflugi frá París í dag. Farþegarnir þurfa að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku áður en þeim verður hleypt um borð í skipið.

Um þrjátíu farþegar fyrsta skemmtiferðaskips sumarsins komu til landsins með leiguflugi frá París í dag. Farþegarnir þurfa að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku áður en þeim verður hleypt um borð í skipið.

Le Boreal kom til hafnar í Reykjavík í morgun með áhöfn um borð en enga farþega - þeir komu til landsins með leiguflugvél frá París. Skipið tekur yfir tvö hundruð farþega en starfsmennirnir verða fleiri en gestirnir í þetta sinn.

„Þeir verða víst ekki fleiri en tuttugu og sex af því fimm manns gátu ekki komist. En skipið tekur 240 farþega. Okkur þykir mikið til koma því við erum einir um borð, “ sögðu Luc og Daniel frá Frakklandi sem eru farþegar í Le Boreal.

Skipamiðlunin Gára sinnir þjónustu við Boreal og útgerðina Ponant hér á landi en von er á fleiri skemmtiferðaskipum þaðan á næstunni. Félagið ber ábyrgð á farþegunum og sóttvarnaráðstöfunum sem þá varða.  

Farþegarnir voru skimaðir á Keflavíkurflugvelli og þaðan voru þeir fluttir í litlum hópum á Miðbakka. Áður en þeim er leyft að fara um borð þurfa þeir að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.

Þegar á höfnina var komið röltu flestir í átt að miðbænum en farþegarnir virtust ekki vita hve lengi þeir þyrftu að bíða eftir niðurstöðu - eða hvað þeim væri heimilt að gera á meðan.

„Ég veit það í raun ekki, hvenær eigum við að mæta til skips? Það var ekki alveg á hreinu, hvort það er eftir tólf tíma eða fimm svo að ég veit ekki hvernig það gengur fyrir sig en ég held að við skoða borgina á meðan.

- Þið ferðist á þessum tímum, eruð þið ekkert hræddir?

„Nei, reyndar ekki. Við þekkjum reglurnar. Við erum frá Frakklandi og við vitum nákvæmlega hvað þarf að gera; halda fjarlægð, og svo sprittið. Þvo sér um hendur - og best er að halda fjarlægð.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi