Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Allt sem getur flogið er á flugi yfir Hellu

11.07.2020 - 13:30
Allt sem flýgur flugsýning á Hellu 11.7.2020
 Mynd: Aðsend - Matthías Sveinbjörnsson
Allt sem flýgur er flughátíð sem Flugmálafélag Íslands heldur nú á Hellu. Þar er ýmislegt í boði fyrir flugáhugafólk; tugir flugvéla eru á svæðinu og von er á fleirum, meðal annars danskri björgunarþyrlu og bandarískri kafbátaleitarvél. Fjöldi fólks er á svæðinu og dróni fylgist með að allt fari vel fram og að sóttvarnarreglur séu virtar.

Á milli 300 og 400 gestir gistu á hátíðarsvæðinu í nótt og búist er við fleirum í dag, en aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.  Hátíðin hefur verið haldin undanfarin tíu ár en í ár verða hátíðahöld með talsvert öðru sniði en áður vegna COVID-19 faraldursins.

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir að vel sé fylgst með svæðinu. „Við erum með dróna á lofti til að fylgjast með því. Það voru hátt í 40 vélar sem voru hérna í nótt og von á fleirum sem koma úr bænum. Við eigum von á að Landhelgisgæslan kíki til okkar í heimsókn þessi danska björgunarþyrla hún kíkir til okkar og  bandarísk kafbátaleitarvél, hún mun fljúga yfir svæðið. Við vorum með Íslandsmeistaramót í flugi í vikunni og það er ekki ósennilegt að nýkrýndur Íslandsmeistari í listflugi muni sýna listir sínar og fleiri til,“ segir Matthías.

Þessu til viðbótar verða svifflugur og fisvélar á lofti yfir hátíðarsvæðinu. „Já, bara í rauninni allt sem flýgur,“ segir Matthías.

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir