Yfir 70.000 látin úr Covid-19 í Brasilíu

10.07.2020 - 23:39
epa08534601 A Brazilian army soldier watches over one of the entrances to the Palacio do Alvorada, residence of the President of Brazil, Jair Bolsonaro, in Brasilia, Brazil, 08 July 2020. Bolsonaro is working from his official residence in Brasilia from this Wednesday, where he plans to serve two weeks of quarantine after testing positive for COVID-19.  EPA-EFE/Joédson Alves
Lífvörður Jairs Bolsonaros, Brasilíuforseta, gengur vaktina við forsetahöllina, með grímu fyrir vitum sér. Bolsonaro greindist með Covid-19 á dögunum en er á batavegi og segist hafa það „mjög gott“ Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 70.000 manns hafa nú dáið úr Covid-19 í Brasilíu og staðfest smit eru orðin 1.800.000 talsins. Samkvæmt tölum brasilískra heilbrigðisyfirvalda létust um 1.200 manns úr sjúkdómnum síðastliðinn sólarhring og um 45.000 nýsmit voru greind. Brasilía er það land sem verst hefur orðið úti í heimsfaraldrinum, á eftir Bandaríkjunum. Hefur sóttin hert tökin þar í landi síðustu vikur og fjöldi látinna tvöfaldast á síðustu 35 dögum.

Verst er ástandið í ríkjunum Sao Paulo og Ríó de Janeiro, þar sem þéttbýlið er mikið í samnefndum stórborgum. Um 17.400 hafa dáið úr Covid-19 í Sao Paulo og um 11.200 í Ríó.

Ástandið mis-alvarlegt í hinum ýmsu ríkjum Brasilíu

Íbúar Brasilíu eru 212 milljónir og þegar horft er til dánartíðni fremur en fjölda dauðsfalla sýnir sig að hún er lægri í Brasilíu en til að mynda Bandaríkjunum og Spáni. Í Brasilíu eru dauðsföllin 335 á hverja milljón íbúa, á móti 403 í Bandaríkjunum og 607 á Spáni.

Ástandið í einstökum ríkjum Brasilíu er hins vegar mun verra - og að sama skapi mun betra í öðrum. Þannig eru skráð 653 dauðsföll á hverja milljón íbúa Ríó de Janeiró, 726 í Amazon-ríki og í Ceará-ríki í norðausturhluta landsins eru dauðsföllin 742 á hverja milljón íbúa. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi