Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðvarandi verkefni að „eltast við trassana“

Mynd með færslu
 Mynd:
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fagnar tillögum um aukið eftirlit Fiskistofu og Landhelgisgæslu með fiskveiðum og endurskilgreiningu á því hverjir teljist vera tengdir aðilar í sjávarútvegi. Þetta er meðal þess sem lagt er til í nýrri skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðum sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Kristján Þór skipaði verkefnastjórnina í mars í fyrra í kjölfar athugasemda sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar í byrjun síðasta árs þar sem lagt var til að ráðist yrði í ýmsar úrbætur í eftirliti með fiskveiðum. Sú skýrsla var gerð í kjölfar fréttaskýringaþáttsins Kveiks um brottkast, framhjálöndun og vanmátt Fiskistofu til að sinna eftirliti.

Meðal þess sem lagt er til í nýju skýrslunni er að eftirlitsmyndavélum verði komið fyrir í höfnum og skipum. Kristján Þór segir markmiðið að minnka brottkast. „Við erum alltaf eilíflega í þessum eftirlitsþætti að eltast við trassana og þá sem eiga að fara betur með. Það er og verður viðvarandi verkefni að ná tökum á því að hindra ólögmæta starfsemi,“ segir Kristján Þór.

Í skýrslunni segir að skerpa þurfi skilgreiningu á hvenær aðilar teljist tengdir þegar kemur að yfirráðum á aflahlutdeildum. Kristján Þór segir erfitt að segja til um hvaða áhrif slik skilgreining gæti haft. 

„Það er ekki lagt neitt sérstakt mat á það í skýrslu verkefnastjórnarinnar og það er einhver þáttur sem ráðuneytið þarf að leggjast yfir.“

Sérðu fyrir þér að það verði hægt að verða við öllum þessum tillögum? „Nú er allt of snemmt að segja til um það. En vilji minn stendur til þess að bregðast við þeim ábendingum sem  komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er full ástæða til að taka þær alvarlega og ég geri ráð fyrir að við munum koma fram með okkar viðbrögð í formi lagafrumvarps í haust og koma öðrum þáttum í tiltekinn farveg,“ segir Kristján Þór.