Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þrjú félög KÍ undirrita kjarasamning

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélag Íslands skrifuðu undir nýja kjarasamninga við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í nótt og í morgun.

Samningarnir, sem eiga að gilda frá 1. janúar 2020 til ársloka 2021, verða kynntir félagsfólki á næstu dögum. Atkvæði verða greidd um þá 5.-7. ágúst.

Kjaraviðræður við Félag grunnskólakennara og Félag stjórnenda í tónlistarskólum halda áfram að loknu sumarfríi.

Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara kveðst mjög sáttur við samningana. Endanlegur úrskurður liggi þó hjá félagsfólki.

Launahækkanir leikskólakennara byggjast á lífskjarasamningnum. Nýbreytni er að öll starfsreynsla í leikskóla verður metin hjá leikskólakennurum, kennurum og þeim sem hafa leikskólafræði á bak við sitt nám, einnig starfsreynsla sem ófaglærður starfsmaður í leikskóla.

Vinnuvika leikskólakennara verður stytt. Undirbúningstími þeirra verður að lágmarki sjö tímar á  viku og undirbúningstími deildarstjóra að lágmarki tíu tímar og í kjarasamningi verður tryggður skýr rammi utan um undirbúningstímana.

Í samningum hinna félaganna er meðal annars fólgin samræming á kjaramálum félaganna og nýtt mat á starfsreynslu.