
Skánverjar mega nú skreppa til Danmerkur á ný
Svíar súrir yfir að vera hafðir útundan
Heimildin nær eingöngu til þeirra sem eru skráðir til heimilis í þessum fjórum lénum og héruðum Svíþjóðar. Svíar - jafnt stjórnvöld sem almennir borgarar - hafa verið giska óánægðir með að vera „skildir útundan“ þegar grannar þeirra í Danmörku og Noregi - og reyndar fleiri löndum - fóru að opna landamæri sín fyrir fólki frá öðrum þjóðum eftir að draga tók úr útbreiðslu kórónuveirunnar.
Sjá einnig: Svíar óvelkomnir í fyrsta sinn í 400 ár
Skilyrði Dana eru þó skýr; dönsk landamæri eru opin fólk frá löndum - eða, eins og í þessu tilfelli, svæðum, þar sem nýsmit á hverja 100.000 íbúa hafa verið færri en 20 á viku að meðaltali, síðustu tvær vikurnar.Næstu nágrannar Dana, þar á meðal Skánverjar, eru líka undanþegnir þeirri kvöð að þurfa að dvelja minnst 6 daga í Danmörku, fari þeir þangað á annað borð. Því geta þeir stigið upp í ferjuna í Helsingjaborg eða brunað yfir Eyrarsundsbrúna við Malmö og snúið aftur heim samdægurs.
Sjá einnig: Svíar mega fara til 10 landa - meðal annars Íslands
Á hinn bóginn ræður sænska utanríkisráðuneytið Svíum enn frá því að ferðast til Danmerkur, og raunar líka til Noregs og Finnlands - vegna COVID-19. Endurskoðuð ferðaráðgjöf ráðuneytisins verður birt miðvikudaginn 15. júlí.