Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skánverjar mega nú skreppa til Danmerkur á ný

10.07.2020 - 03:35
Mynd með færslu
Eyrarsundsbrúin olli byltingu í samskiptum Skánverja og Sjálendinga, og líka í atvinnulífinu beggja vegna sundsins. Umferð um brúna hefur að mestu legið niðri síðan kórónuveirufaraldurinn gaus upp snemma í vor og Danmörk lokaði landamærunum. Mynd: M.Nilsson - SVT
Íbúar Skánar í Suður-Svíþjóð geta brugðið sér yfir Eyrarsundið til granna sinna í Danmörku frá og með miðnætti í kvöld. Danska utanríkisráðuneytið tilkynnti þetta í gær. Áður höfðu íbúar í Blekinge, Kronobergsléni og Vesturbotni fengið heimild til að ferðast til Danmerkur, einir Svía. Þar búa samtals tæplega 600.000 en Skánverjar eru öllu fleiri, eða tæplega 1.400.000 talsins.

Svíar súrir yfir að vera hafðir útundan

Heimildin nær eingöngu til þeirra sem eru skráðir til heimilis í þessum fjórum lénum og héruðum Svíþjóðar. Svíar - jafnt stjórnvöld sem almennir borgarar - hafa verið giska óánægðir með að vera „skildir útundan“ þegar grannar þeirra í Danmörku og Noregi - og reyndar fleiri löndum - fóru að opna landamæri sín fyrir fólki frá öðrum þjóðum eftir að draga tók úr útbreiðslu kórónuveirunnar.

Sjá einnig: Svíar óvelkomnir í fyrsta sinn í 400 ár

Skilyrði Dana eru þó skýr; dönsk landamæri eru opin fólk frá löndum - eða, eins og í þessu tilfelli, svæðum, þar sem nýsmit á hverja 100.000 íbúa hafa verið færri en 20 á viku að meðaltali, síðustu tvær vikurnar.Næstu nágrannar Dana, þar á meðal Skánverjar, eru líka undanþegnir þeirri kvöð að þurfa að dvelja minnst 6 daga í Danmörku, fari þeir þangað á annað borð. Því geta þeir stigið upp í ferjuna í Helsingjaborg eða brunað yfir Eyrarsundsbrúna við Malmö og snúið aftur heim samdægurs.  

Sjá einnig: Svíar mega fara til 10 landa - meðal annars Íslands

Á hinn bóginn ræður sænska utanríkisráðuneytið Svíum enn frá því að ferðast til Danmerkur, og raunar líka til Noregs og Finnlands - vegna COVID-19.  Endurskoðuð ferðaráðgjöf ráðuneytisins verður birt miðvikudaginn 15. júlí.