
Rafmagn í stað olíu á Kili
Þetta breytir mjög rekstrargrundvelli ferðaþjónustu á Kili og eykur til muna fjarskiptaöryggi á þessari fjölförnu hálendisleið. Þá verða olíuflutningar til hálendismiðstöðva á svæðinu úr sögunni.
Orkuskipti mikilvæg aðgerð í ferðaþjónustu
Í kaffisamsæti sem haldið var til að fagna verklokunum ávarpaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, þá sem komu að verkefninu. „Orkuskipti á Kili eru mikilvæg aðgerð fyrir framtíðarsýn um umhverfisvæna ferðaþjónustu sem byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum,“ sagði hún.
Samstarf ríkisins, fyrirtækja og sveitarfélaga
Ríkið lagði 100 milljónir til verkefnisins en lagning strengsins kostaði 285 milljónir. Auk ríkisins taka þátt sveitarfélögin Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur og Húnavatnshreppur, en einnig Neyðarlínan, Fjarskiptasjóður, Rarik og ferðaþjónustufyrirtæki í Árbúðum, Kerlingafjöllum og á Hveravöllum.