
Móta ber skýra framtíðarsýn í loftslagsmálum
Úttektin var rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Að mati þeirra sem gerðu hana eru loftslagsmál helsta forgangsverkefni næstu áratuga. Því þurfi að tryggja nægt fjármagn til málaflokksins.
Þar kemur einnig fram það standi aðgerðum stjórnvalda, fyrirtækja og heimila fyrir þrifum að ekki sé skýrt með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hyggjast ná markmiðum alþjóðlegra skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Markmiðið um kolefnislaust Ísland 2040 sé harla óljóst í hugum flestra.
Herða þurfi á ábyrgð þeirra ráðuneyta sem fari að uppistöðu til með loftlagsstefnu Íslands og skapa vettvang fyrir samhæfingu stefnu og aðgerða stjórnvalda. Þar að auki er í úttektinni hvatt til breytinga á núverandi löggjöf og hefðum um Stjórnarráð Íslands.
Móta þurfi skýra framtíðarsýn og tengja markmið í loftslagsmálum við breytta atvinnuhætti, öra tækniþróun og samfélagsbreytingar. Auka þurfi samstarf á flestum sviðum samfélagsins, stjórnsýslu, atvinnulífs og vísindasamfélags.
Þá beri að horfa til og læra af árangri annarra ríkja á sviði loftslagsmála.
Skipað var í Loftslagsráð í ágúst 2019. Því er ætlað að veita stjórnvöldum aðhald og markvissa ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.
Í úttektinni er hvatt til að ráðinu verði veitt aukið sjálfstæði og greint sundur tvíþætt hlutverk þess um ráðgjöf og aðhald.