Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minni kraftur í makrílveiðinni

10.07.2020 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: svn.is
Makrílveiðin suður af landinu gengur treglega sem stendur, ólíkt því sem verið hefur síðustu vikur. Skipin eru að fá síld í stað makríls sem er ekki það sem útgerðin vill veiða á makrílvertíð.

Flest uppsjávarskipin eru nú farin til makrílveiða en fyrstu skip hófu veiðar upp úr miðjum júní. Ágætis veiði var til að byrja með og nær stanslaus makrílvinnsla hefur til dæmis verið í Vestmannaeyjum síðustu tvær til þrjár vikur.

Veiðin ekki eins stöðug og undanfarið

Veiðin var rétt við Eyjar til að byrja með, en hefur nú dottið niður og er ekki eins stöðug og síðustu vikur. Núna eru skipin dreifð við leit austur með suðurströndinni og þeir sem rætt var við í morgun segja enga samfellda göngu að sjá heldur séu skipin að hitta í makríl hér og þar.

Mikil síld truflar makrílveiðina

Mikil síld hefur truflað makrílveiðina og skipverji á Aðalsteini Jónssyni SU sagði að um tíu prósent af síld hafi verið í því sem veiddist í morgun. Þeir eru við landgrunnskantinn suðaustur af landinu. Og síldveiði er ekki verkefnið að þessu sinni.

Segja besta tímann eftir

Síðustu tvö ár hefur minna mælst af makríl fyrir sunnan og vestan land en árin þar á undan. Þar sem svo stutt er síðan uppsjávarflotinn fór til veiða hefur enginn farið vestur fyrir land og miðað við vertíðina í fyrra er besti tíminn eftir. Sem stendur er allavega lítill kraftur í makrílveiðinni.