Mynd: EPA-EFE - EFE

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Metfjöldi COVID-19 tilfella á einum sólarhring greindist í Mexíkó í gær. Skráð tilfelli voru tæplega 7000. Sennilega eru þau enn fleiri því lítið er skimað í landinu. Hugo Lopez-Gatell, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneyti Mexíkó, telur að þrátt fyrir fjölgun smita sé að hægjast á faraldrinum.
Tilfelli í Mexíkó eru orðin rúmlega 275 þúsund. Tæp 32 þúsund hafa látist af völdum veirunnar. Aðeins hafa fleiri látist í fjórum öðrum ríkjum heims. Miðja faraldursins er nú í höfuðborg landsins, Mexíkóborg. Þar hefur þegar verið losað um hömlur að einhverju leyti þrátt fyrir ástandið.
Faraldurinn er jafnframt afar skæður í suðurríkjum Bandaríkjanna um þessar mundir. Mexíkóbúar í norðurhluta landsins berjast nú fyrir auknu eftirliti á landamærunum til þess að hindra útbreiðslu faraldursins frá Bandaríkjunum. The Guardian greinir frá því að íbúar bæjarins Sonoyta, sem er skammt frá landamærunum við Arisóna-ríki, hafi notað bifreiðar sínar til þess að tálma för Bandaríkjamanna sem reyna að aka til vinsæls strandbæjar í Mexíkó.