Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grunnskólakennarar búast við að semja í haust

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samningar Félags grunnskólakennara hafa nú verið lausir í rúmt ár. Skrifað hefur verið undir framlengingu á viðræðuáætlun við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg og er markmið hennar að skrifað verði undir nýjan kjarasamning 1. október.

Þrjú aðildarfélög Kennarasambands Íslands, Félag leikskólakennara, Skólastjórafélag Íslands og Félag stjórnenda leikskóla skrifuðu undir nýja kjarasamninga í dag. Enn er ósamið hjá tveimur kennarafélögum; Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Félagi grunnskólakennara.

Samningar grunnskólakennara hafa verið lausir síðan 1. júlí í fyrra. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir að viðræður hafi gengið vel og að þær verði teknar upp aftur í haust. Hún segir að ekki verði krafist hækkana umfram Lífskjarasamninginn, en lögð sé áhersla á að kennarar hafi svigrúm til að vinna hluta starfa sinna utan veggja skólans. 

„Við erum því miður eins og margir aðrir búin að halda upp á ársafmæli með lausa kjarasamninga. Við erum hinsvegar þeirrar skoðunar að við séum þrátt fyrir það, þá séum við á þeim stað að við séum í trausti þess að ná samningi og þess  vegna er þessi endurnýjaða viðræðuáætlun, hún byggir á því trausti að við náum samningi fyrir 1. október.“

Varla er gott að hafa verið samningslaus í meira en ár? „Nei,það er ekki gott og þetta er ekki ásættanleg staða fyrir nokkurn hóp. En við teljum okkur eiga gott samtal við viðsemjendurna og treystum okkur til að klára þetta.“