Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Geta framvísað vottorði til að sleppa skimun og sóttkví

10.07.2020 - 19:05
Mynd: RÚV / RÚV
Þeir sem hafa sýkst af COVID-19 hér á landi eða eru með mótefni fyrir veirunni geta á næstunni framvísað vottorði þar um og komist þannig hjá landamæraskimun, samkvæmt uppfærðri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins. Breyttar reglur taka gildi á mánudag.

Íslendingar og aðrir sem búsettir eru hér á landi og hafa veikst af COVID-19 eða eru með staðfest mótefni í blóði, geta frá og með næsta mánudegi framvísað opinberu vottorði um slíkt. Þeir eru þá undanþegnir sýnatöku á landamærum og þurfa ekki fara í sóttkví við komuna til landsins. Þetta er gert samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis. Fyrst um sinn verða vottorð einungis tekin gild ef þau eru gefin út á Íslandi eða í tengslum við ferðir Norrænu.

Sóttvarnalæknir fundaði í dag með fulltrúum Smyril Line og færeysku rannsóknarstofunnar sem sér um sýnatökuna í Norrænu. Stefnt er að því að farþegar í næstu ferð Norrænu hingað til lands fari ekki í sýnatöku á vegum íslenskra stjórnvalda heldur taki Færeyingarnir sýni af þeim sem eru á leið til hingað til lands. 

Ítarlegar leiðbeiningar til að fylgja milli skimana

Samkvæmt reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra fær sóttvarnalæknir nú skýrari heimildir til að skilgreina fleiri lönd en Færeyjar og Grænland sem lágáhættusvæði. Þeir sem dvalið hafa þar í fjórtán daga fyrir komuna til landsins þurfa hvorki að fara í skimun né sóttkví. Ekki hefur verið greint frá því hvaða önnur lönd sóttvarnalæknir leggur til að fari í þann flokk.

Sóttvarnalæknir hefur aftur á móti gefið út ítarlegri leiðbeiningar um hvernig skal viðhalda svokallaðri heimkomusmitgát, sem er vægara úrræði en sóttkví, fyrir þá sem eru búsettir hér á landi og fara í sýnatöku á landamærum. Þeir þurfa að fara aftur í sýnatöku fjórum til sex dögum eftir heimkomu, en þurfa í millitíðinni að fylgja þessum leiðbeiningum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Orkuhúsið.

Aðstaða sett upp í Orkuhúsinu

Seinni skimunin er á vegum heilsugæslunnar og verður gjaldfrjáls. 

„Henni verður háttað þannig að fólk mætir í síðari sýnatökuna fjórum til sex dögum eftir að það hefur farið í sýnatöku á landamærum. Og fær skilaboð um að mæta í þá sýnatöku í tölvupósti,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu tekur við aðstöðu í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut og reiknar með að taka fyrstu sýnin í þessari síðari skimun á fimmtudag. Sjö starfsmenn sinna sýnatökunum á höfuðborgarsvæðinu, og enn er unnið að því að útfæra hvernig sýnatöku verður háttað á heilsugæslum á landsbyggðinni. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ekki í vandræðum að bæta þessu verkefni við

Er heilsugæslan tilbúin að bæta þessu ofan á allt annað sem hún er að sinna?

„Já, þetta hefur gengið mjög vel og heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók þessar skimanir að sér í upphafi. Við höfum unnið með fjölda stofnana að því að láta þetta ganga. Þetta gengur bara vel og við eigum í sjálfu sér ekki í vandræðum með að bæta þessu við.“

Hvað þarf fólk svo að bíða lengi eftir niðurstöðum?

„Það eru einhverjir klukkutímar eða sólarhringur. Þetta hefur gengið mjög hratt og örugglega og ég reikna með að það geri það áfram,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.