Forsætisráðherra Grikkja tók á móti Rafnarsbáti

10.07.2020 - 00:01
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd - RÚV
Gríski forsætisráðherrann var viðstaddur þegar landhelgisgæslan þar í landi tók í dag í notkun björgunarbáta sem byggja á íslenskri hönnun og eru sambærilegir þeim sem Landhelgisgæslan hér á landi notar. Bátarnir reyna mun minna á áhöfn en aðrir björgunarbátar sem getur reynst mikilvægt í björgun og leit.

Bátarnir byggja á hönnun Össurar Kristinssonar stoðtækjaframleiðanda. Bátasmiðjan Rafnar hefur unnið að hönnun og þróun sambærilegra báta allt frá árinu 2005 þegar fyrirtækið var stofnað.  Þeir komu fyrst á markað fyrir 5 árum. Hér á landi er Landhelgisgæslan með tvo sambærilega báta auk björgunarsveita bæði í Reykjavík og á Austurlandi. 

„Við erum stoltir af þessarri hönnun. Það er ekkert sambærilegt á markaði. Það er mjög mikil þörf fyrir þessarri hönnun því það er mikil um slys og örorku um borð í svona bátum, hraðskreiðum bátum við erfiðar aðstæður.“  segir Haukur Alfreðsson, framkvæmdastjóri Rafnars ehf.

Mikill liðsstyrkur fyrir grísku landhelgisgæsluna

Gríska Landhelgisgæslan fékk í dag fyrsta bátinn afhendan frá félaginu Rafnar Hellas í Grikklandi. Til stendur að afhenda gæslunni tíu báta á næstu mánuðum. Forsætisráðherra Grikklands var viðstaddur og sagði hann við afhendinguna að tilkoma Rafnarsbátanna styrki björgunarflota Grikkja til muna og geri þeim kleift að sinna björgun við mjög krefjandi aðstæður. 

„Skrokkurinn er síðari eða kjölurinn. Það er í átt við það sem er á seglbátum. Þannig að báturinn klýfur ölduna betur. Það eykur lyftið í bátnum og til dæmis í beygjum er hann mun rásfastari. Það jafnast á við eins og þegar þú ferð í rússíbana, að í beygjum þá er hann eins og á teinum.“ segir Haukur.

Minna högg þýðir minni sjóveiki

Þróunarvinna hefur staðið lengi yfir. Fyrirtækið hefur stundað rannsóknir á höggum og áhrifum á áhöfn í samvinnu við Háskóla Íslands.

„Þar kemur fram að höggin í okkar bát er allt að 90 prósent og upp í 99 prósent minni en í sambærilegum bátum af sömu stærð“ segir Haukur.

Það sé mikilvægt þegar björgunarfólk þarf að takast á við krefjandi björgun að vera ekki lurkum laminn og sjóveikur á leið á björgunarstað.
Fréttastofa fór á sjó í dag á samskonar bát. Óhætt er að segja að viðbragðstími bátsins sé með ólíkindum. 

„Það að sigla svona bát, það er ekkert líkt því. svo einfalt er það.“  segir Þorsteinn Bragi Jónínuson, skipstjóri á Stefni.

Þetta er bara eins og leiktæki að sitja í þessu. „Já ég kalla þetta nú vinnu, en já já, þetta er ágætis dagur á skrifstofunni.“

Þetta minnir helst á rússíbana.

Já, já svona þegar maður fer að nota þessa 500 hesta sem eru hérna fyrir aftan okkur þá má alveg líkja þessu við rússíbana.“  
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi