Farþegar skemmtiferðaskips koma til landsins með flugi

Mynd: Fréttir / Fréttir
Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kemur til hafnar hér á landi í fyrramálið. Farþegarnir sextíu koma til landsins með flugi og verða skimaðir á Keflavíkurflugvelli.

Í eðlilegu árferði skipta komur skemmtiferðaskipa yfir sumartímann hundruðum en ekkert skemmtiferðaskip hefur komið hingað til lands frá því í byrjun mars. Í fyrra komu um 190 farþegaskip í Faxaflóahafnir með ríflega tvö hundruð þúsund farþega. Í ár hafa allar komur stærri skipa meira og minna verið afbókaðar út sumarið með tilheyrandi tekjutapi fyrir hafnir landsins. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins, Le Boreal, kemur til hafnar í fyrramálið með áhöfn um borð en enga farþega - því þeir koma til landsins með leiguflugvél frá París til Keflavíkur þar sem þeir verða skimaðir.

Að því búnu verða farþegarnir fluttir í litlum hópum á Miðbakka þar sem þeir bíða niðurstöðu úr sýnatökunni. Fá þeir neikvætt svar verður þeim hleypt um borð í skipið sem siglir með þá til Grænlands.

Gunnar Tryggvason, aðstoðarhafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að Faxaflóahafnir taki á móti skipinu en sjái að öðru leyti ekki um sóttvarnarráðstafnir vegna komu farþeganna.

 

Gunnar Tryggvason, aðstoðarhafnastjóri Faxaflóahafna.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Gunnar Tryggvason, aðstoðarhafnarstjóri Faxaflóahafna.

 

„Farþegarnir, eins og þú segir, koma annars staðar að, þeir eru ekki á okkar forsendum, við höfum áhyggjur af skipinu eða sjáum um þær áhyggjur en farþegarnir koma utan úr bæ í sjálfu sér, eða við lítum svo á. Þeir eru í sjálfu sér á eigin vegum þar til þeir koma hingað. Þeir þurfa að bíða eftir niðurstöðu prófana og það geta þeir gert hér fyrir utan girðingu eða í vakthúsinu sem er bak við okkur,“ segir Gunnar.

Skipafélagið Gára sér um mál Boreal og útgerðarinnar Ponant hér á landi og ber ábyrgð á farþegunum og útfærslu sóttvarna. Forsvarsmenn Gáru vildu ekki veita fréttastofu viðtal. Engar upplýsingar fengust um hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar vegna komu farþegaskipsins. Ponant útgerðin er komur sex skipa áætlaðar í júlí, með um 100-200 farþegum hvert.

„Við eigum von á öðru skipi frá sömu útgerð tveimur dögum síðar á sunnudag eða manudag og þessi skip koma hérna aftur í haust eða í sumar. Og verður fyrirkomulagið með þessum hætti? Hjá þessari útgerð sem er að prófa sig saman verður það það, skilst okkur, en við vitum ekki um hina,“ segir Gunnar.

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi