Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fá leyfi til að endurheimta votlendi í Ketildölum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Landeigandi á Fífustöðum í Ketildölum á Vestfjörðum fær að endurheimta votlendi á jörðinni sinni. Vesturbyggð heimilaði ekki framkvæmdina í september og vísaði henni til Skipulagsstofnunar.

Vesturbyggð mat það sem svo í fyrra að endurheimt votlendis á 57 hekturum lands á Fífustöðum væri háð framkvæmdaleyfi og mögulega umhverfismati. Votlendissjóður hafði þá einungis tilkynnt framkvæmdina. Í framhaldi af því sóttir sjóðurinn um leyfi hjá sveitarfélaginu og fékk umsögn frá Skipulagsstofnun. Skipulags- og umhverfisráð sveitarfélagsins samþykkti svo á fundi sínum í gær að veita framkvæmdaleyfi.

Ragnheiður Guðmundsdóttir, landeigandi á Fífustöðum, segir að þetta hafi seinkað ferlinu um ár.

„Það er mjög gott að fá svar, ég var orðin svolítið örvæntingarfull yfir þessu öllu saman. Þetta er búið að taka langan tíma en þetta er alla vega komið núna og það er gott.“

Sagði búskap sinn stóla á beit í landi Fífustaða

Sauðfjárbóndi í dal nærri Fífustöðum setti sig á móti framkvæmdinni og sagði búskap sinn stóla á að hann geti sett fé sitt á beit í landi Fífustaða að hausti og vori. Það yrði ómögulegt ef farið yrði í endurheimt votlendis þar.

„Það náttúrulega verður, þetta votlendi. Ef hann telur sauðfé ekki geta bitið á votlendinu þá veit ég ekki hvað ég get gert í því. Ég meina, hlíðarnar hérna upp frá votlendinu verða ekkert blautar,“ segir Ragnheiður.

Votlendissjóður hefur umsjón með framkvæmdinni og fyrirtækið Suðurverk, sem vinnur nú að gerð Dýrafjarðarganga, hefur boðist til þess að taka hana að sér. Ragnheiður býst við því að endurheimt hefjist með haustinu.