Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tillaga Rússa um að takmarka neyðaraðstoð felld

epa07786747 Acting US Ambassador to the United Nations Jonathan Cohen speaks during the UN Security Council meeting in connection with the US missile development in violation of the Treaty on the Elimination of Medium and Small Range Missiles in New York, USA, 22 August 2019.  EPA-EFE/BRYAN R. SMITH
Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tillaga Rússa um að draga úr utanaðkomandi mannúðaraðstoð við stríðshrjáða Sýrlendinga var felld í Öryggisráðinu í gærkvöld með atkvæðum sjö ríkja gegn fjórum. Fulltrúar fjögurra ríkja sátu hjá. Á þriðjudag beittu Rússar og Kínverjar neitunarvaldi til að koma í veg fyrir framlengingu samkomulags um mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna við nauðstadda Sýrlendinga, í gegnum tvær landamærastöðvar á mörkum Tyrklands og Sýrlands.

Samkomulagið hefur verið í gildi um sex ára skeið, en gildistími þess rennur út á föstudag. Fulltrúar Þýskalands og Belgíu lögðu á þriðjudag fram ályktun sem kvað á um framlengingu samkomulagsins. Þrettán af fimmtán fulltrúum í Öryggisráðinu samþykktu hana en Rússar og Kínverjar komu í veg fyrir framgang ályktunarinnar.

Fram að síðustu áramótum var einnig heimilt að flytja hjálpargögn til Sýrlands frá Jórdaníu og Írak en fallið var frá tillögu um að halda því áfram vegna andstöðu Rússa og Kínverja.

Krefjast þess að aðeins ein landamærastöð verði opin fyrir hjálpargögn

Tillaga Rússa, sem lögð var fram í gær, fól í sér að framvegis yrði einungis heimilt að flytja hjálpargögn til Sýrlands í gegn um eina landamærastöð í stað fjögurra, eins og heimilt var til ársloka 2019. Halda þeir því fram að engin ástæða sé til að flytja nauðstöddum Sýrlendingum hjálpargögn frá öðrum löndum, heldur skuli það vera á forræði Sýrlandsstjórnar.

Al Jazeera hefur eftir ónafngreindum evrópskum diplómata að markmið Rússa - og Sýrlandsstjórnar - sé að herða enn grimmdartök sín á stríðshrjáðri og aðframkominni sýrlenskri þjóð. „Krafan um aðeins eina leið inn í landið fyrir hjálpargögn er kaldranaleg og þjónar á engan hátt þörfum þjóðarinnar,“ segir diplómatinn.

Fyrirlitleg og hættuleg misbeiting neitunarvalds

Sherine Tadros, yfirmaður sendiskrifstofu Amnesty International hjá Sameinuðu þjóðunum, tekur í sama streng og segir brýnt að tryggja fleiri leiðir inn í landið fyrir hjálpargögn. Að öðrum kosti muni milljónir Sýrlendinga líða hungur. „Og  fyrir sjúkrahús snýst þetta um að hafa nægar birgðir til að bjarga mannslífum. Þess vegna er þessi misbeiting Rússa og Kínverja á neitunarvaldinu bæði fyrirlitleg og hættuleg,“ segir Tadros.

Alþjóða Rauði krossinn fordæmdi einnig framgöngu Rússa og Kínverja í málinu. „Að koma í veg fyrir aðgang að matvælum, sjúkragögnum, bóluefni og öndunarvélum er óásættanlegt á hvaða tímum sem er, en það er enn hraklegra nú á tímum COVID-19 heimsfaraldursins,“ sagði David Miliband, formaður alþjóðlegu hjálparsamtakanna IRC í yfirlýsingu sinni.

Mark Lowcock, yfirmaður mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, greindi frá því 29. júní að áætlað sé að um 2,8 milljónir Sýrlendinga í norðvesturhluta landsins - um 70 prósent íbúa á svæðinu - þurfi nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda. 

Í upprunalegri útgáfu þessarar fréttar var David Miliband sagður formaður Alþjóða Rauða krossins (ICRC). Hið rétta er að hann er formaður International Rescue Committee (IRC).