Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rio Tinto og Landsvirkjun ræða enn raforkuverð

Álver Rio Tinto í Straumsvík.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Landsvirkjun á enn í viðræðum við Rio Tinto, sem rekur álverið í Straumsvík, um hugsanlegar breytingar á raforkusamningi og segist reiðubúin að koma til móts við fyrirtækið vegna rekstrarerfiðleika þess. Talsmaður Rio Tinto hér á landi segir að lokun á álveri móðurfélags þess á Nýja Sjálandi hafi engin áhrif á starfsemina hér á landi. 

Fyrr á þessu ári tilkynntu stjórnendur Rio Tinto um að starfsemin hér á landi yrði endurskoðuð og álverinu hér hugsanlega lokað. Þeirri endurskoðun átti að ljúka í lok júní, en hún liggur ekki enn fyrir. Mikið tap hefur verið á rekstrinum og stjórnendur Rio Tinto hafa gagnrýnt hátt orkuverð hér á landi. Í morgun tilkynnti móðurfélag Rio Tinto að álverum félagsins á Nýja Sjálandi yrði lokað á næsta ári vegna hás raforkukostnaðar.

Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto, segir að það hafi engin áhrif á starfsemina hér á landi. Ekki hafi enn náðst samkomulag við Landsvirkjun um raforkusamning. „Sem treystir stöðu ÍSAL og gerir það samkeppnishæft og fjárhagslega sjálfbært til framtíðar. En það er bara unnið að þessu,“ segir Bjarni.

Í skriflegu svari frá Landsvirkjun við fyrirspurn fréttastofu segir að hún hafi ítrekað farið fram á við Rio Tinto að leynd verði aflétt af samningnum. Bjarni segist ekki geta upplýst um hvaða verð standi til boða og segir óljóst hvenær niðurstöður endurskoðunarinnar liggi fyrir.

„Um leið og ákvarðanir verða teknar þá munum við auðvitað leggja áherslu á að upplýsa okkar starfsfólk og alla aðra hagsmunaaðila,“ segir Bjarni.

En forsendan fyrir þessu er að það náist breyttir samningar við Landsvirkjun?  „Já það er auðvitað það sem lagt var upp með og við vorum alveg skýr með að það væri það sem þyrfti,“ segir Bjarni.
 

>>