Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Reistu hnefa í átta mínútur og 46 sekúndur

Mynd með færslu
 Mynd: Major League Soccer - Twitter

Reistu hnefa í átta mínútur og 46 sekúndur

09.07.2020 - 10:00
Bandaríska karladeildin í fótbolta, MLS, sneri aftur í gærkvöld eftir hlé sem gert var vegna COVID-19. Leikmenn í deildinni sýndu réttindabaráttu svartra í landinu samstöðu fyrir leik gærkvöldsins.

Hefðbundnir leikir í deildinni geta ekki farið fram vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en leikmenn liða deildarinnar eru saman komnir í Disney-skemmtigarðinum í Flórída þar sem sérstakt mót fer fram næsta mánuðinn, til 11. ágúst. FC Dallas er að vísu ekki meðal keppnisliða þar sem tíu leikmenn og starfsfólk félagsins greindist með kórónuveiruna. Efasemdir ríkja þá um þátttöku Nashville SC þar sem fimm tilfelli veirunnar greindust hjá félaginu.

Fyrsti leikur mótsins var milli Inter Miami, sem er í eigu fyrrum knattspyrnustjörnunnar Davids Beckham, og Orlando Pride. Leikmenn liðanna tveggja krupu á miðjuboga vallarins fyrir leik á meðan fjöldi leikmanna annarra liða úr deildinni stilltu sér upp á vellinum og reistu hnefa í átta mínútur og 46 sekúndur.

Mynd með færslu
 Mynd: Major League Soccer - Twitter

Með þessu mótmæltu leikmenn ofbeldi gegn svörtum Bandaríkjamönnum og sýndu samstöðu með Black Lives Matter-hreyfingunni. Tímalengdin er vísun í morðs á George Floyd, sem lést eftir að lögreglumaðurinn Derek Chauvin þrýsti hné sínu á háls Floyd í átta mínútur og 46 sekúndur sem varð honum að bana 25. maí síðastliðinn. Chauvin hefur verið ákærður fyrir morð en atvikið varð kveikjan að stærstu mótmælum gegn kynþáttahatri og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum í hálfa öld.

Mynd með færslu
 Mynd: Major League Soccer - Twitter

Reisti hnefinn er þá vísun í fræg mótmæli Tommie Smith og John Carlos sem sýndu hreyfingu Svörtu pardusanna (e. Black Panthers) stuðning með því að reisa hnefa íklæddir svörtum hanska undir þjóðsöngi Bandaríkjanna við verðlaunaafhendingu á Ólympíuleikunum í Mexíkóborg árið 1968.

Mynd með færslu
 Mynd: Angelo Cozzi - Wikimedia Commons

Mótmælin voru skipulögð af samtökunum Svartir leikmenn til breytinga (e. Black Players for Change) sem sett voru á laggirnar af leikmönnum í MLS-deildinni.

Orlando Pride vann 2-1 sigur á Inter Miami í fyrsta leiknum í gær þar sem Portúgalinn Nani, fyrrum leikmaður Manchester United, skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma. Sá segir mótmælin fyrir leik hafa hreyft við sér.

„Þetta var tilfinningaríkt fyrir þá sem voru þarna. Við viljum allir breyta heiminum. Við viljum betri heim án mismununar. Allir í heiminum ættu að staldra við, hugsa um börnin okkar og kenna þeim hvernig þau geta verið betri manneskjur og skapað þannig betri heim,“ sagði Nani í viðtali eftir leik.