
Möguleiki á 883 smávirkjunum á Austurlandi
Baldur Pétursson verkefnastjóri hjá Orkustofnun, var gestur Síðdegisútvarpsins í dag þar sem hann ræddi niðurstöður úttektarinnar en með smávirkjun er átt við virkjun sem er minni en 10 MWe. Hann segir að úttektin hafi verið gerð vegna orkuskorts á ýmsum stöðum á landinu og óöryggis í orkumálum, eins og hafi komið berlega í ljós í óveðrinu síðastliðinn vetur.
„Eins og fram kemur í þessari skýrslu þarf ekki alltaf að fara yfir lækinn til að sækja vatnið,“ sagði Baldur í þættinum.
Baldur sagði að þó þessir virkjanakostir séu fyrir hendi sé ólíklegt að allar þessar virkjanir verði reistar vegna kostnaðar og aðstæðna.
Fjöldi smárra virkjana er hér á landi og eru þær meðal annars nýttar við raforkuframleiðslu fyrir heimili og iðnað, meðal annars í Glerárhverfinu á Akureyri. „Þær koma inn á dreifikerfið og létta þannig álagið á flutningskerfið og skapa þannig aukið öryggi í viðkomandi landshluta. Sala á raforku hefur verið frjáls frá árinu 2003 þannig að eigendur smárra virkjana gætu selt raforkuna inn á dreifikerfið,“ sagði Baldur. Það færi þó eftir fjarlægð á milli virkjunarinnar og burðarlínu.
Baldur sagði að Austurland væri ekki eina landsvæðið sem byði upp á þessa möguleika. Undanfarin ár hefðu áþekkar kannanir verið gerðar í öðrum landshlutum. Um væri að ræða vannýtt tækifæri í orkumálum og sala raforku úr smávirkjun gæti verið veruleg búbót fyrir bændur.