Löndin þar sem Íslendingar þurfa ekki að fara í sóttkví

09.07.2020 - 19:19
Mynd: RÚV / RÚV
Íslendingar geta nú ferðast til flestra ríkja í Evrópu án þess að fara í sóttkví við komuna þangað. Til skoðunar er hvaða önnur ríki sem Evrópusambandið telur að séu örugg geti einnig verið opin fyrir Íslendinga.

Það er helst á Balkanskaganum og allra austast í Evrópu þar sem Íslendingum eru skorður settar varðandi ferðalög. Á meðfylgjandi korti má sjá þau ríki í Evrópu sem Íslendingar geta nú ferðast til án þess að fara í sóttkví. Þrjú lönd af þessum tuttugu og tveimur skera sig þó úr. 

  • Í Grikklandi eiga allir ferðamenn á hættu að verða teknir í handahófskennt úrtak og í sýnatöku við komuna til landsins. Ef smit greinist er viðkomandi skylt að fara í einangrun.
  • Í Portúgal er gerð krafa um tveggja vikna sóttkví, nema fyrir þá sem geta sýnt fram á neikvætt COVID-próf, viðurkennt af yfirvöldum, sem tekið var innan þriggja sólarhringa frá komu til landsins.
  • Þá gera Færeyingar kröfu um að allir fari í skimun við komuna til landsins, líkt og gert er hér á landi - líka Íslendingar. Færeyingar eru þó undanþegnir því við komu til Íslands.

Vinna að því hvert ferðast má annað frá Íslandi

Evrópusambandið gaf út lista í lok júní yfir fjórtán ríki utan sambandsins sem talin eru örugg. 

Frá og með 1. júlí hefur fólki þaðan verið heimilt að koma til Evrópusambandsríkja, auk þess sem fimmtánda ríkið, Kína, bíður staðfestingar. Meðal þeirra sem ekki eru á þeim lista eru Bandaríkin og Brasilía.

Utanríkisráðuneytið vinnur nú að því að afla upplýsinga um hvort og með hvaða skilyrðum þessi ríki muni opna fyrir ferðalög frá Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa sjálf ekki gefið út eigin reglugerð um örugg ríki og óvissuþættirnir eru því töluverðir.

Þó Íslendingar geti ferðast nokkuð óhindrað í Evrópu bíða þeirra takmarkanir við komuna til landsins á ný, þar sem þeir þurfa frá og með mánudeginum að fara tvisvar í sýnatöku, við komuna til landsins og nokkrum dögum síðar. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi