Lík gefin til rannsókna étin af rottum

09.07.2020 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson og Eggert  - RÚV
Yfirvöld í Frakklandi rannsaka nú fullyrðingar um að líkamar sem fólk hefur ánafnað til vísindarannsókna séu skilin eftir og látinn rotna eða séu étnir af rottum.

Guardian greinir frá og segir embætti saksóknara í París vera með málið til skoðunar. Málið rataði til embættisins eftir að dagblaðið l'Express fjallaði um vanhelgun á líki í nóvember í fyrra. Fullyrti dagblaðið að líkamsleifar þúsunda manna sem hefðu ánafnað líkama sinn læknavísindunum hefðu fundist í hræðilegum ásigkomulagi CDC, sérstakri miðstöð fyrir líkamsgjafir, við Descartes háskólann í París.

Sagði blaðið nakin og sundurlimuð lík hafa legið í hrúgu, auk þess sem afhöggið höfuð hafi legið á gólfinu. Sumir líkamspartanna hafi verið teknir að rotna, aðra hafi rottur nagað þar sem þeir lágu í yfirfullum ruslapokum.

Ástandið, sem var myndað árið 2016, hefði mest minnt á fjöldagröf.

Frederic Douchez, lögfræðingur fjölskyldna sem kærðu málið, sagði góðar fréttir að það væri nú til skoðunar.

Tæplega áttatíu kvartanir hafa verið lagðar fram til þessa en umfjöllunin leiddi á sínum tíma til þess að frönsk stjórnvöld fyrirskipuðu miðstöðinni skildi lokað. Sérstök stjórnsýslunefnd sem skoðaði málið sagði þá í síðasta mánuði að háskólinn hefði gerst sekur um alvarleg siðferðisbrot varðandi stjórn miðstöðvarinnar.

CDC var opnað árið 1953 og var stærsta miðstöð sinnar tegundar í Evrópu.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi