Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landamæraskimun breytt um mánaðamótin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Áherslum við landamæraskimun verður breytt um mánaðamótin, segir sóttvarnalæknir. Sóttkví sem íbúar landsins fara í þegar þeir koma til landsins hefur fengið nafnið heimkomusmitgát og verður hún vægari en sóttkví.

Hægt að hleypa fleirum inn í landið

„Það er von á nýjum áherslum um mánaðamótin júní júlí. Það er hins vegar ólíklegt að við munum hætta allri skimun. Við þurfum að halda skimun áfram þegar við förum að opna inn á farþega frá öðrum löndum þar sem að tíðnin á COVID-19 er miklu hærri heldur en til dæmis í öðrum löndum í Evrópu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna. 

Verði dregið úr landamæraskimun er hægt að hleypa fleirum inn í landið því hámarkssýnatökufjöldi verður áfram miðaður við tvö þúsund. 

Vægari útgáfa af sóttkví við heimkomu

Á upplýsingafundinum kom fram að sú sóttkví sem þeir sem búsettir eru hérlendis þurfa að fara í við komuna til landsins verði vægari en sú hefðbundna og nefnist hún heimkomusmitgát. Sýnatakan að henni lokinni fer fram á einum stað fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur segir að um mánaðamótin verði hægt að hafa opið á veitinga- og skemmtistöðum lengur en nú er eða til miðnættis eða klukkan eitt. Hann hyggst ekki heimila fjöldasamkomur með fleiri en 500 út ágúst. Áður hafði verið talað um 2000 manns. 

Vísaði á bug rangfærslum í gagnrýni

Þórólfur svaraði líka gagnrýni undanfarinna daga á landamæraskimunina einkum frá læknum Landspítala. Fullyrðingum um að milljarða kostnaður falli á spítalann vegna skimunar sagði hann vera fjarri öllu lagi. Þá hafi því verið haldið fram að hlutverk Landspítalans væri ekki að taka þátt í skimunum á heilbrigðu fólki. Það sé rangt því í leyfisveitingu fyrir rannsóknarstofunum í sýkla- og veirufræði sé sérstaklega kveðið á um hlutverk þeirra í sóttvörnum landsins og í samningi stofanna við sóttvarnalækni segi að þeim beri að stunda skimun fyrir smitsjúkdómum sem hafi þýðingu fyrir almannaheill. 

„Þannig að það er alrangt að halda því fram að það sé ekki hlutverk Landspítalans eða rannsóknarstofanna þar að taka þátt í skimunum og taka þátt í þessum aðgerðum sem við erum að grípa til.“