Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur - pistill II

Mynd: http://67.media.tumblr.com/b3ac6 / http://67.media.tumblr.com/b3ac6

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur - pistill II

09.07.2020 - 09:20

Höfundar

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur veltir fyrir sér nýyrðum í ljóðmáli nokkurra íslenskra skálda, frá Jónasi Hallgrímssyni til Sigfúsar Daðasonar. Um leið beinir hún sjónum að ofnotkun valinkunnra orða í Tengivagninum á Rás 1.

Steinunn Sigurðardóttir skrifar:

Nú hef ég mál mitt á því að beina sjónum að orðunum tveimur í yfirskriftinni á spjallinu mínu sem eru klárlega ekki nýyrði. Yfirskriftin sem sagt:

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur

Fyrri tvö, greyið klárlega og greyið gríðarlega, eru dæmi um orð sem er búið að ofnota þannig að þau verða ekki framar tæk í texta sem vildi kenna sig við skáldskap. Kannski er orðið klárlega nokkuð sem lægi ekki endilega svo beint við að nota í póesíu, en ljóðlistin fer nú breikkandi, þannig að það væri aldrei að vita, ef ekki væri búið að gera út af við orðið.

Ég heyri klárlega gríðarlega stóran hóp af stjórnmálafólki, fjölmiðlafólki… bara fólki, sem tjáir sig aldrei opinberlega án þess að nota orðin klárlegur og gríðarlegur í gríðarlegum erg. Sjálf mundi ég úr því sem komið er ekki viðhafa þessi orð, hvorki í ljóð né prósa. Ekki einu sinni í töluðu máli, nema sem grín. Sérstaklega sé ég eftir orðinu gríðarlegur, sem gat verið, fyrir kannski svona tuttugu árum, vel þegið orð og launfyndið, í einhverju samhenginu.

Til dæmis minnist ég þess með gríðarlegum söknuði úr Kundera þýðingum Friðriks Rafnssonar. Ég man að hann náði oft fram sérstaklega fínum kómískum tilþrifum með orðinu gríðarlegur. Nýjasta veður sem ég hafði af gríðarlegheitunum, var í útvarpinu, þar sem orðalagið var gríðarlegur sómi - það var orðinn gríðarlegur sómi að einhverju, sem hlýtur að vera næsta stig við uggvænlegan sóma, eða jafnvel ískyggilegan.

Meinlegt dæmi um sérstakt indælisorð sem búið er að kæfa með ofnotkun er orðið vegferð. Nú hefur allur andskotinn snúist upp í vegferð. Ég sé ekki fyrir mér að það orð gæti orðið á minni ljóðrænu vegferð upp frá þessu. Vegferð hefur nú á sér væminn blæ og það er eins og eitthvað ráðgefandi við það. Sá sem notar orðið vegferð ætlar greinilega að hafa einhvers konar mildilegt sálusorgaravit fyrir okkur. Þannig að kannski væri enn hægt að nota það í sálm, eða í minningargreinar um vammlausar vegferðir.

Nú ætla ég að vinda mér yfir í mótvægið við ofnotkun og orðafátækt, og halda áfram að skoða uppbyggilega og skapandi ljóðorðasmiði.

Af öllum þeim góðu skáldum sem hafa verið mér svo yfirmáta hugleiknir í orðaferðinni er enginn sem kemst í hálfkvisti við Jónas sjálfan. Öll hans skrif, hvort sem það eru beinhörð ljóð, eða náttúrufræðilegir textar um fiska og stjörnur, halda áfram að vera mér til gagns og gamans og innblásturs, enn meira eftir því sem tíminn líður, og er ég þar í góðum félagsskap svo ólíkra stórmeistara eins og Halldórs Laxness og Sigfúsar Daðasonar.

Eitt Jónasarundrið er Hulduljóð. Þegar ég fór yfir það enn á ný komu fínyrðin fagnandi í fangið á mér. Sumum hafði ég gleymt, og hálftáraðist við endurfundina, önnur í fersku minni. Dæmin dásamlegu: hulduþjóð - spóarödd - döggsvalur. Þetta síðasta stendur í samhenginu: „Döggsvalur úði laugar lokkinn bleika / ljós er af himni, næturmyndir reika.“ Sennilega er orðið næturmyndir líka uppfinning Jónasar, og ekki af lakara tagi.

Örlítið minna rómantísk nýyrði er líka að finna í Hulduljóðum. Orðið holtaþokuvæl virðist örugglega vera Jónasarbur, að minnsta kosti er elsta dæmið í ritmálssafni Háskóla Íslands um holtaþokuvæl frá Jónasi komið.

Svo eru þau orð Jónasar, dásamleg á sínum stað, en teldust líklega einnota, í góðri merkingu auðvitað. Þar á meðal hinn sæli birkiþrastasveimur. Ég sé varla fyrir mér að það gæti komið að notum seinni skálda. En ef þetta samansúrraða og um leið svo vel heppnaða orð er tekið í sundur, þá væri orðið birkiþröstur rétt skapað og fullgilt, en alls ekki vænlegt yfir lifandi kvikindi, heldur sér maður fyrir sér spýtuþröst, tálgaðan í birki. Svo er samsetningin þrastasveimur varla sérlega álitlegt orð. En um leið og birkiþrastasveimurinn er kominn, þá lifnar allt og myndin springur út, tala nú ekki um þegar orðið góða er farið að blika í laufi, „blikar í laufi birkiþrastasveimur,“ þá hellist yfir okkur sumarfegurð og óumræðileg íslensk sveitasólin í æðra veldi, fyrir tilstilli aðeins fjögurra orða, eða segjum sex, ef við tökum birki-þrasta-sveiminn í sundur. En talandi um einnota, þá eru vegir skapandi endurnýtingar óendanlegir, eins og sést á því að Snorri Hjartarson kemur með söng-þrasta-sveim.

Orðin hans Jónasar hafa sannarlega fangað fleiri en mig. Mætti ég benda sérstaklega á grein Guðrúnar Kvaran í Skírni, sem heitir: Vatnareyðar sporðablik, málblíðar mæður og spegilskyggnd hrafntinnuþök - um orðasmíð í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar.

Hún finnur hátt á þriðja hundrað nýyrði í kvæðum Jónasar og ljóðaþýðingum. Hún tekur til þess hve mörg þeirra hafi lifað áfram, verið nýtt af öðrum og orðið hluti orðaforðans. Sem sé besti vitnisburður um vel heppnaða orðasmíð.

Það er mikið umhugsunarefni að hvað miklu leyti Jónas Hallgrímsson hefur verið fyrirmynd okkur sem á eftir honum komu, hvað það varðar að smíða og setja saman ný orð eins og ekkert sé sjálfsagðara. Fyrirmyndarspursmálið er tæpast auðvelt rannsóknarefni, svo huglægt sem það er. Hins vegar, ef við hugsum okkur íslenskt mál yfirleitt, og sérstaklega ljóðmál, án tilverknaðar Jónasar, þá er ljóst að við sætum uppi mun snauðari. Ekki aðeins að þeim fjölmörgu og listilegu orðum sem eru beinlínis hugarsmíð Jónasar, heldur værum við áreiðanlega fátækari að fjölda ljóðmálsorða sem litu dagsins ljós vegna þess að fyrirmyndin, Jónas, vísaði veginn. Á þann hátt, einnig, er ég sannfærð um ótvírætt uppeldisgildi Jónasar fyrir okkur öll sem á eftir fóru.

Á flakkinu mínu um heimatilbúna orðasmíð íslenskra skálda hef ég heillast enn og aftur af ljóðmálinu í Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr.

Til dæmis eru undursamleg nýyrðin hans hvað liti varðar. Tálblár, svo eitt dæmi sé tekið, tálblátt regn. Kannski nær nýyrðakynngi Steins hámarki í eftirfarandi versi:

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn

Því meira sem ég velti fyrir mér nýsköpun orða í íslensku ljóðmáli frá Jónasi og fram eftir, þeim mun ljósara verður að hvert ljóðskáldið á fætur öðru hefur að einhverju leyti búið sér til tungumál, með sínum heimatálguðu orðum. Og hafa skáldin þar með haldið áfram að auka frjósemi tungunnar og margfalda, því af orði sprettur orð.

En ég vil líka halda því vel til haga hve mikilvægt er að nýta orðin sem fyrir eru. Því þar er sköpunarkrafturinn líka, að taka fágæt orð til handargagns, eins og ekkert sé, eða að taka algengt orð og setja í nýtt ljós.

Svo heppilega vill til að spekingurinn Þorsteinn Þorsteinsson hefur rannsakað eitt af mínum uppáhaldsskáldum og skáldvin sem ég eignaðist snemma, Sigfús Daðason. Fyrir mér verður ljóðið Myndsálir, sem er kynngimagað, og orðnotkun sérlega athyglisverð. Meðal fornra og sjaldséðra orða sem falla eðlilega inn í ljóðið er hið undursamlega orð farsumar, sem kemur fyrir í íslenskum annálum, þýðing samkvæmt Cleasby á The Season for Seafaring. Annað slíkt orð er eftirlætislíf, sem kemur fyrir í Veraldarsögu.

Af sjaldséðum orðum í ljóðinu, sem þó eru ekki forn mætti nefna hið skemmtilega orð merakóngur. Haft um þann sem á mikið af hestum og braskar með þá.

Nota bene. Nú veit ég ekki hvort það er rétt sem oft heyrist að Íslendingar, og sérstaklega yngri kynslóðin, séu að verða orðafátækt fólk, miðað við það sem áður var. Samkvæmt minni lauslegu reynslu er það þó æ sjaldnar sem maður heyrir alls konar sniðug orðin á borð við þau sem pabbi og mamma og þeirra fólk brúkuðu. Ég geri það upp á grín að nefna eitt sem ég sakna, það er rindræpa. Notað um þann sem lítur ekki sérlega vel út þá stundina, heldur eins og rindræpa. Þetta er nú ekki alveg eins sakleysislegt og ætla mætti, því ef það væri skrifað út mundi það vera: rignd ræpa. En til þess að verða ekki svo óhemjugrafískur þá skautaði háttvíst sveitafólk með hraði gegnum þessi tvö orð svo úr varð eitt, hin undirfurðulega og meinlitla rindræpa.

Ef það væri nú satt og rétt að það væri að flysjast svona jafnt og þétt utan af íslenska orðnotkunarstabbanum, að menn noti alltaf færri og færri orð, þá fyndist mér að það ætti að grípa til alvöru mótvægisaðgerða. Nú kannski er verið að því. En ég get ekki ímyndað mér að börn og unglingar hafi umturnast svo gjörsamlega frá því ég síðast vissi að þau séu hætt að hafa gaman af orðum. Síðast þegar ég vissi fundu krakkar og unglingar upp orð og orðtæki í hrönnum, og enginn endir á uppfinningaseminni.

Það er ekki tómt pjatt að reyna að halda við sem stærstum og hressustum orðaforða til daglegs brúks. Það er einfaldlega þannig að klisjan Orð eru til alls fyrst, hún stenst. Með orðafátækt kemur hugsanafátækt. Það er ekki hægt að orða hugsun sína, tjá sig svo vel sé, nema hægt sé að grípa til sem flestra og fjölbreyttastra orða.

Og fram hjá því verður ekki komist að hin klárlega gríðarlega ofnotkun og klifun á einstökum orðum stuðlar klárlega að gríðarlegri orðafátækt, sem gerir líf okkar hreinlega snauðara og leiðinlegra, með meiru. Erum við ekki öll þannig að við njótum þess að smáskemmta okkur á ýmsa lund yfir einhverju sérstöku orði á góðri stund eða vondri. Sú iðja að þjösnast í síbylju á sama orðinu, opinberlega, endar með því að pöplinum dettur ekkert skárra í hug en klárleg gríðarlegheit, sem enda eins og dæmið sannar á því ískyggilega máli að sóminn sjálfur verður gríðarlegur.

Málinu er ekki lokið og langt í frá, en ég set nú punkt á eftir ljóðbroti um Jónasarorð. Það er reyndar sérstaklega til marks um hversu hjartakær og hugleikinn Jónas Hallgrímsson hefur verið okkur gegnum tíðina að skáldin hafa keppst við að yrkja um hann. Hann er líka fyrirmynd ungskáldsins Hermanns í Skáldanótt Hallgríms Helgasonar.

Hér, að lokum, niðurlagið á ljóði Hallgríms um Jónas, ort í orðastað Hermanns skálds:

En milli okkar liggur langur vegur.
Þér leiðist allt sem hef ég þér að segja
því hvert mitt orð, það komið er frá þér.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur – pistill I