Kennari hverfur, finnst en hverfur svo aftur

Mynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir / Bergrún Íris Sævarsdóttir

Kennari hverfur, finnst en hverfur svo aftur

09.07.2020 - 09:41

Höfundar

Bergrún Íris Sævarsdóttir gerir það ekki endasleppt með kennarahvörf né heldur við alls kyns brögð og brellur þar sem snjallsími er ekki nauðsyn. Í nýrri bók, sem er framhald verðlaunabókarinnar Kennarinn sem hvarf, og heitir Kennarinn sem hvarf sporlaust hverfur kennarinn Bára enn á ný og krakkarnir í 6. BÖ mega nú leita vísbendinga á snæviþöktu skíðasvæði þar sem stöðugt fýkur yfir öll spor og myrkrið er ógnvænlega svart.  

Það er komið að langþráðu skíðaferðalagi og bekkjarfélagarnir í 6. BÖ eru full tilhlökkunar í rútunni sem flytur þau langt upp í fjöll þar sem ætla að renna sér á skíðum og snjóbretti daginn langan. En það fer á annan veg. Það sem átti að vera skemmtun á skíðum á daginn og söngur og sögur á kvöldin breytist í ógnvænlega leit að vísbendingum um það hvað hefur orðið af Báru kennara og fararstjóra ferðarinnar en þau eru einfaldlega horfin, sporlaust. Það er enginn með síma og eina fullorðna manneskjan á svæðinu er rútubílstjórinn Rútur Rútsson sem virðist hreint ótrúlega gamall. 

Það er sami krakkahópur og í verðlaunabók Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur Kennarinn sem hvarf sem enn á ný þarf að leysa margvíslegar þrautir til að komast að því sanna í þessu nýja mannshvarfi. Nú er það hins vegar ekki Hekla Þöll sem segir söguna heldur hin vinsæla fótboltastelpa Sara sem stundum verður hugsað til heimahaga sinna í Albaníu. „Mér finnst svo mikilvægt að börn fái að spegla sig í alls konar fólki, alls konar persónum en ekki bjóða upp á staðalmyndir ( ... ) og reynsluheimur Söru er reynsluheimur ótal barna á Íslandi.“ Allir leggja sitt af mörkum við lausn málsins og þótt atburðarásin sé hröð er líka pláss fyrir skemmtisögur, jafnvel samúð með sökudólgnum. „Vondi kallinn er mikilvæg persóna,“ segir Bergrún Íris. „Ég get látið hann segja ýmislegt sem má ekki segja en börn heyra og þarf að leiðrétta.“  

Það var árið 2014 að Bergrún Íris Sævardóttir sendi frá sér sína fyrstu bók þar sem hún bæði teiknaði myndirnar og skrifaði textann en áður hafði Bergrún myndskreytt allmargar bækur annarra höfunda. Þetta var bókin Vinur minn vindurinn þar sem leikið er með orðgnótt íslenskunnar um veður og vinda. Ári síðar kom svo út bókin Sjáðu mig sumar sem eins og nafnið bendir til fjallar um sumarið, fuglana og fólkið sem alltar er að leita að góða veðrinu. Báðar þessar bækur hafa nú verið endurútgefnar í einni enda löngu uppseldar. 

Það er augljóst á bókum Bergrúnar Írisar, sem nú eru orðnar að minnsta kosti tólf, að hún hefur sérstakt yndi af orðum, merkingu þeirra og blæbrigðum, þá finnast henni snjallsímar nauðsynlegir en samt ekki alltaf og stöðugt og henni er í mun að ólíkar kynslóðir mætist og læri hver af annarri. „Ég elska að skrifa eldri borgara,“ segir Bergrún. „Við erum að tala um fróðleiksbrunna og bara alfræðiorðabækur. Þarna er til dæmis allt öðru vísi tungutak og það er svo gaman að splæsa þessu saman og leyfa tíu ára krakka að ræða við eldra fólk og sjá mismunandi reynsluheima og hvað við eigum samt margt sameiginlegt.“

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Úr vínbúð í bókaútgáfu

Bókmenntir

Í einu lífi rúmast mörg

Bókmenntir

Hver er Jonas Eika?

Bókmenntir

Bergrún Íris og Kennarinn sem hvarf