Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hálendisvegir opnaðir óvenjuseint

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Flestir af helstu hálendisvegum landsins eru orðnir færir, mun seinna þó en oftast áður. Umferð um hálendið er minni en síðustu ár, en landvörður við Öskju segir koma á óvart hve margir Íslendingar eru á ferðinni.

Það er enn talsverður snjór víða á hálendinu, en þó hefur tekist að opna helstu leiðir. Kjalvegur og leiðin í Herðubreiðarlindir og Öskju voru opnaðar fyrir nokkru og einnig í Kverkfjöll. Sprengisandsleið var opnuð í dag þó enn sé ófært upp úr Skagafirði og Eyjafirði. Þá eru leiðirnar um Fjallabak orðnar færar.

Margar íslenskar fjölskyldur á fjöllum

Kunnugir segja að mörg ár séu síðan svo lítil umferð hafi verið um hálendið. Bæði vegna þess hve seint vegir eru opnaðir en svo vanti þá miklu umferð erlendra ferðamanna sem jafnan er. Stefanía Vignisdóttir, landvörður í Dreka við Öskju, segir að ferðamenn úr Norrænu skili sér þangað en það sé óvenjumikið um íslenskt fjölskyldufólk á fjöllum. „Oft fólk sem hefur ekki komið hingað áður og kemur nokkuð á óvart að það er á bílaleigubílum. Hefur bæði leigt jeppa eða einhverja svona camperbíla og er að nefna að það hafi allt í einu tækifæri til að koma. Hafi ekki haft það áður.“

Minna að gera hjá hálendisvaktinni

Hálendisvakt Landsbjargar er hafin að Fjallabaki og norðan Vatnajökuls og Guðbrandur Örn Arnarsson, verkefnastjóri, segir talsvert um göngufólk á hálendinu og rútur á ferðinni. Og þó minna sé að gera en oftast áður sé þetta eftirlit mikilvægt. „Það getur verið ákveðin hjálp í fjölmenninu. Samhjálp ferðamannanna er oft mikil,“ segir hann.

Óvenjuhlýtt og -bjart við Öskju

Stefanía segir veðrið við Öskju hafa verið óvenjugott undanfarið en gönguleiðir séu þó enn víða á kafi í snjó. „Ég man ekki eftir að það væri svona oft svona hlýtt og bjart. Fyrir vikið svolítið sandfok, af því að það hefur ekki rignt nógu mikið. En það er hins vegar óvenjumikill snjór sunnan við okkur, sem sagt á Dyngjufjallaleið, Dyngjufjalladal, Gæsavatnaleið. Um þetta leyti í fyrra vorum við að opna báðar leiðir, þannig að það stefnir í að það verði einhver bið á því, því miður.“