Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erlend afskipti í Líbíu hafa „náð áður óþekktum hæðum“

09.07.2020 - 05:52
epa07396932 United Nations (UN) Secretary-General Antonio Guterres speaks to the media, during an UN and ICRC joint statement on sexual and gender-based violence in conflict, at the European headquarters of the United Nations in Geneva, Switzerland, 25 February 2019.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, greindi Öryggisráði samtakanna frá því í gærkvöld að borgarastríðið í Líbíu væri komið á annað og enn alvarlegra stig en áður, þar sem „erlend afskipti hafa náð áður óþekktum hæðum." Borgarastyrjöld hefur geisað - með mislöngum hléum - allar götur síðan Muammar Gaddafi var steypt af stóli með aðstoð herja Atlantshafsbandalagsins árið 2011.

Tvær fylkingar bítast um völdin í Líbíu. Önnur þeirra er ríkisstjórn sem situr í Trípólí og er viðurkennd af af meirihluta alþjóðasamfélagsins. Hin er hreyfing stríðsherrans Khalifa Haftars, sem studd er af Tobruk-stjórninni svonefndu, sem ekki er viðurkennd af alþjóðasamfélaginu og hefur takmarkaðan stuðning meðal almennings en nokkurn þó.

Opinská hernaðaraðstoð frá fjórum ríkjum

Haftar nýtur velvildar og aðstoðar Rússa, Egypta og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Öll þessi ríki hafa veitt Haftar hernaðaraðstoð, ýmist í formi hergagna, ráðgjafa eða hvors tveggja, en Tyrkir hafa verið virkustu, hernaðarlegu bandamenn Trípólístjórnarinnar.

Sjá einnig: Líbía skólabókardæmi um erlend afskipti

Í ávarpi sínu í gærkvöld sagði Guterres að erlend ríki væru farin að útvega stríðandi fylkingum háþróaðan vopnabúnað, auk þess sem fjöldi erlendra málaliða væri farinn að taka beinan þátt í átökunum.

1.200 málaliðar á vegum rússnesks fyrirtækis og 10.000 frá Sýrlandi

Samkvæmt rannsókn sem unnin var fyrir Öryggisráðið og erindreka Sameinuðu þjóðanna í Líbíu eru allt að 1.200 málaliðar á vegum rússneska hernaðarfyrirtækisins Wagner Group í herbúðum Haftars um þessar mundir. Utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna upplýsti Öryggisráðið um að „um það bil 10.000 sýrlenskir málaliðar væru að störfum í Líbíu núna, um tvöfalt fleiri en fyrir hálfu ári.“

Tyrkir hafa sent Trípólístjórninni hóp hernaðarráðgjafa og vopnaðra manna, auk hergagna í miklu magni. Egyptar hóta innrás, geri Trípólístjórnin tilraun til að hertaka borgina Sirte með aðstoð Tyrkja, en borgin er á valdi Haftars. Alls er talið að hersveitir, hernaðarsérfræðingar og málaliðar frá allt að tíu ríkjum taki þátt í átökunum í Líbíu með beinum eða óbeinum hætti.

Gróf brot gegn alþjóðlegum samþykktum

Guterres segir þetta vera gróf brot gegn vopnasölubanni Sameinuðu þjóðanna til Líbíu, ályktunum Öryggisráðsins og skuldbindingum sem hin ýmsu ríki sem í hlut eiga hafi undirgengist á friðarráðstefnu í Berlín í janúar síðastliðnum.

Þá greindi hann frá því að erindrekar Sameinuðu þjóðanna hefðu staðfest að minnst 102 óbreyttir borgarar hefðu fallið í valinn í átökum stríðandi fylkinga frá apríl fram í júní og yfir 250 særst, og að minnst tuttugu og einu sinni hefði verið ráðist á sjúkrahús, sjúkratjöld, sjúkrabíla og heilbrigðisstarfsfólk á þessu sama tímabili. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV