Ekki hamlandi að vanta þrjá fingur

Mynd: Halla Harðardóttir / RÚV

Ekki hamlandi að vanta þrjá fingur

09.07.2020 - 09:46

Höfundar

Magnús Jochum fæddist með sjaldgæfan litningagalla sem veldur því að hann er aðeins með tvo fingur á vinstri hendi. „Þetta háir mér ekki mikið en það er líklega erfiðara að missa hendur en að fæðast svona,“ segir Magnús sem er í skapandi sumarstarfi í Kópavogi í sumar og er í óða önn að gera afsteypur af óvenjulegum útlimum.

Magnús Jochum Pálsson vinnur nú að viðtals- og skúlptúrasýningu sem hann kallar Lim(a)lestur. Hann ræðir við fólk sem hefur misst fingur, hendur eða handleggi, eða fæðst án þessara útlima líkt og hann sjálfur, og tekur svo mót eða afsteypur af útlimunum eins og þeir eru. Sýningin samanstendur af viðtölum við einstaklingana, ljósmyndum og skúlptúrum af útlimum þeirra.

Hugmyndina sækir hann auðvitað í eigin reynsluheim en hann segir reynslu fólks af því að vanta útlimi virkilega ólíka og viðtölin eins frábrugðin og viðmælendur eru margir. „Í einu viðtalinu ræddum við um íþróttir og lyftingar, við annan spjallaði ég um örorkukerfið. Svo talaði ég við eina konu um hana sjálfa, hvar hún hefur verið og hvað hún hefur gert,“ segir Magnús. Flestir þeirra sem hann hefur rætt við hingað til hafa tekið verkefninu fagnandi. „Ég ætla að ná allavega tíu einstaklingum og leyfa fólki að sjá þetta og heyra af þessu,“ segir hann. En hvað vill hann fá út úr verkinu? „Ávinningurinn er auðvitað ekki mikill, nema frægð og frami,“ segir hann glettinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Harðardóttir - RÚV
Fyrsti skúlptúrinn á sýningunni er af fingrum Magnúsar

Sjálfur segist hann hafa vanist því frá æsku að nota aðeins tvo fingur á annarri hendi og segir hann það ekki há sér mikið. „Ég get gripið um hluti, haldið á glasi og um fjarstýringar, til dæmis,“ telur hann upp og hlær. „En það er erfiðara að gera upphífingar til dæmis. Þá næ ég ekki almennilega gripi en ég finn mínar leiðir.“

Magnús er að læra íslensku en hann skrifar mikið sjálfur og hefur gefið út örsagnasafn. Við skriftir smásagna og viðtala vélritar hann og segist hann ekki finna mikið fyrir fingraskortinum þó hann vélriti ekki hratt. „Ég er ekki með góða fingrasetningu en geri þetta mjög eðlilega.“

Þeir sem eru áhugasamir um þátttöku í sýningunni eða þekkja einhvern sem gæti verið það mega heyra í Magnúsi í síma 661-2618 eða senda póst á netfangið [email protected]. Rætt var við Magnús Jochum í Sumarmálum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þá fattaði ég að ég væri hvít og ekki eins og hinir“

Menningarefni

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað

Menningarefni

Það eina sem fer í gegnum hugann er „ekki deyja“