„Ef það virkar ekki, þá virkar það ekki“

Mynd: draumfarir / draumfarir

„Ef það virkar ekki, þá virkar það ekki“

09.07.2020 - 14:28

Höfundar

Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson skipa tónlistartvíeykið Draumfarir sem hefur verið lengi í vinnslu en lítur loksins dagsins ljós.

Tónlistarmennirnir tveir hafa verið að gera það gott í íslenskri tónlistarsenu síðustu misseri en að mestu leyti bak við tjöldin. Þeir áttu tvö lög í Söngvakeppninni í ár, lagið Dreyma sem Matti Matt flutti, og Klukkan tifar/Meet Me Halfway sem Ísold og Helga fluttu. Það síðarnefnda komst í úrslit. Þá hafa þeir verið að semja lög fyrir söngkonur eins og Raven, Jónu Öllu og fleiri. Birgir á að baki glæstan sólóferil og sendi nýverið frá sér plötuna Untold Stories. Hún var plata vikunnar á Rás 2 fyrir skemmstu, og lagið Can You Feel It er eitt mest streymda lag Íslendings á Spotify með yfir 22 milljón streymi.

Upphaf Draumfara má rekja til þess að Birgir og Ragnar unnu saman sem flugþjónar hjá Icelandair og byrjuðu að syngja og semja saman. Draumfarir var pæling sem hófst löngu fyrir Söngvakeppnina sem tók þó yfir og þeir eyddu meiri tíma í að semja fyrir aðra. Nú eru þeir að flytja eigin tónlist og í fyrsta sinn á íslensku.  Það er miklu erfiðara, segir Birgir en þeim þyki vænna um það. Þeir segjast vera að semja tónlist innan sinnar deildar. „Við erum á heimaslóðum í poppinu en kannski aðeins að klóra okkur áfram í 80’s fíling, svona synþapopp” segir Birgir. 

„En við erum mjög opnir, við prófum allt og ef það virkar ekki, þá virkar það ekki” segir Ragnar.

Mynd með færslu
 Mynd: draumfarir

Bjartar nætur er fyrsta lagið með Draumförum. „Lagið er sumarlegt og er óður okkar til sumarsins 2020,“ segir Birgir. Hann semur textann ásamt Hrafnhildi Magneu. Arnarr Guðjóns tók upp lagið og sá um masteringu. Fyrsta plata Draumfara er í vinnslu, tíu laga gripur sem er væntanlegur í lok árs.

 

Ragnar og Birgir komu við í Popplandi á Rás 2, hlustaðu á viðtalið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kalla sig „celebs“ og gera grín að smábæjar-kúltúr

Popptónlist

„Sævar, ég var að spila í vitlausu brúðkaupi“