Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætlar að vinda ofan af gjörningi Haraldar

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, hafði ekki heimild til að semja við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá embættinu um breytingar á launakjörum sem færðu þeim stóraukin lífeyrisréttindi, samkvæmt lögfræðiáliti sem núverandi ríkislögreglustjóri aflaði. Hún hefur tilkynnt yfirmönnum hjá embættinu að til standi að vinda ofan af samningunum.

Skuldbindingar LSR jukust um 309 milljónir

Það var í ágúst í fyrra sem Haraldur bauð þeim yfirlögregluþjónum og aðstoðaryfirlögregluþjónum hjá embætti ríkislögreglustjóra sem greiða í B-deild LSR að færa fastar yfirvinnustundir inn í grunnlaun. Einn yfirlögrelguþjónn hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fékk sama boð. Þetta færði þeim níu lögregluþjónum sem samþykktu breytingarnar aukin lífeyrisréttindi og skuldbindingar LSR jukust um 309 milljónir króna vegna þessara starfsmanna.

Gjörningurinn var umdeildur. Bæði var hann gerður á þeim tíma sem mikill styr stóð um störf Haraldar Johannessen og lögreglustjórar vöktu athygli á því að með þessu væru laun umræddra lögregluþjóna orðin hærri en flestra lögreglustjóra í landinu.

Sagður hafa skort heimildir

Dómsmálaráðherra sendi lögreglustjórum bréf þar sem hún tilkynnti að eftirmanni Haraldar, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, hafi verið falið að taka umrædda samninga til skoðunar, meðal annars hvort breytingarnar hafi verið í samræmi við starfslýsingu og stofnanasamning.

Ríkislögreglustjóri leitaði til Forum lögmanna til að fá álitsgerð um réttarstöðu embættisins vegna samninganna. Niðurstaðan er afgerandi. Haraldur Johannessen hafði enga heimild til að gera slíka samninga, það voru engin málefnaleg rök fyrir þeim og þeirra eina markmið var að auka lífeyrisréttindi umræddra starfsmanna verulega.

Í álitinu segir að ríkislögreglustjóri hafði lögum samkvæmt ekki heimild til að skuldbinda LSR og að samningarnir eigi ekki stoð í lögum og stofnanasamningum. Samningarnir hafi verið gagngert gerðir til að tryggja stóraukin lífeyrisréttindi á kostnað LSR og mögulega ríkissjóðs. Vegna þess að þeir byggist ekki á lögmætum sjónarmiðum séu þeir ógildanlegir.

Launin ákveðin upp á nýtt

Sigríður Björk staðfestir í samtali við fréttastofu að hún hafi tilkynnt yfirmönnum hjá embættinu að hún hyggist vinda ofan af samkomulaginu sem Haraldur gerði við lögregluþjónana og ákvarða að nýju launasamsetningu og röðun í launaflokka, í samræmi við lög, kjarasamninga og stofnanasamninga. Lögreglumennirnir sem um ræðir hafa tvær vikur til að skila inn andmælum.