Yfirlæknir: „Ansi margt sem þarf að gerast“

08.07.2020 - 18:40
Landspítali mun margfalda afkastagetu sína með nýrri greiningaraðferð þar sem nokkur sýni eru sett saman í eitt. Aðferðin er ásættanleg þegar smithlutfall er lágt líkt og er í skimun á landamærum. Yfirlæknir er bjartsýnn á að geta að fullu tekið við af Íslenskri erfðagreiningu á þriðjudag en segist geta leitað til Íslenskrar erfðagreiningar ef upp komi vandræði.

Skortur á tækjabúnaði, húsnæðisvandi og mannekla hefur til þessa takmarkað afkastagetu sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans við um fimm hundruð sýni á dag. Viðmið stjórnvalda er að geta greint tvö þúsund sýni á dag á landamærum og hefur Íslensk erfðagreining því séð um nær alla greiningu.

Eftir að Kári Stefánsson forstjóri tilkynnti að því yrði hætt á þriðjudag hafa stjórnvöld því neyðst til þess að finna leiðir til þess að Landspítalinn geti tekið við. Keypt höfðu verið ný tæki en þau komast ekki í gagnið fyrr en í ágúst og október og því þurfti að auka afköst með öðrum hætti.

„Það er ansi margt sem þarf að gerast,“ segir Karl Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, „en við erum með fólk í því á mörgum vígstöðvum og ef allt gengur upp verðum við tilbúin á þriðjudaginn.“

Greiningaraðferðum breytt

Tryggja þarf mönnun og nægilegan búnaði og efni, tölvukerfi þurfa að tala saman, koma þarf upp sérstakri flæðilínu í húsnæðinu fyrir sýnin, sem þurfa að vera aðskilin sýnum frá sjúklingum, en umfram allt verður greiningaraðferðum breytt til að auka afkastagetu.

Með núverandi tækjabúnaði tekur minnst tvær klukkustundir að greina tæplega hundrað sýni sem eru hámarksafköst tækja sem keyra þarf þau í gegn. Þegar jafnlítið hlutfall sýna og nú greinast á landamærum eru jákvæð, hefur reynst áreiðanlegt að greina mörg sýni í einu og verður það gert frá þriðjudegi.

Lítið magn verður tekið úr hverju sýni, allt að tíu, og sett saman í eitt sýni, svokallað „pooling“, og það prófað. Verði niðurstaðan úr blandaða sýninu neikvæð eru öll tíu sýnin neikvæð. Verði niðurstaðan jákvæð, verður hvert og eitt sýni prófað.

Fyrst um sinn verða fimm sýni prófuð í einu en hægt er að prófa allt að tíu. Þannig er hægt að fimm til tífalda afköstin með núverandi tækjabúnaði.

Átján koma úr Vatnsmýrinni

Átján starfsmenn vinna nú við greiningu á vegum Landspítalans í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar og munu færast yfir til veirufræðideildar þannig að hægt verður að vinna þar á tvískiptum vöktum frá sex á morgnana til miðnættis. 

Kári Stefánsson átti fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu var markmið fundarins að tryggja að áfram verði hægt að leita í reynslubrunn Íslenskrar erfðagreiningar þótt beinni aðkomu fyrirtækisins að verkefninu ljúki.

Karl segir að Kári hafi boðist til þess að vera Landspítalanum innan handar. „En eins og stendur erum við að reyna gera þetta upp á eigin spýtur ef svo má segja en ef við lendum í vandræðum með eitthvað þá munum við sjá til hvort Íslensk erfðagreining geti ekki hlaupið undir bagga með okkur,“ segir Karl.
 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi