Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verja skipun ráðherra sem sakaður er um nauðgun

epa08533442 French Interior Minister Gerald Darmanin (C) visits the Gendarmerie of Port-Sainte-Marie near Agen, France, 07 July 2020, to pay tribute in Gendarme Melanie Lemee who was fatally hit by a car at a military checkpoint on the D813 road on 04 July.  EPA-EFE/MEHDI FEDOUACH / POOL  MAXPPP OUT
Innanríkisráðherrann Gérald Darmanin er æðsti yfirmaður lögreglu í Frakklandi Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Gérald Darmanin, innanríkisráðherra í nýskipaðri ríkisstjórn Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sætir rannsókn vegna ásökunar um nauðgun. Forsetinn og aðrir ráðherrar í stjórninni verja skipun Darmanins en kvenréttindasamtök gagnrýna hana harðlega.

Macron og samráðherrar Darmanins réttlæta útnefningu hans með vísan til þeirrar grundvallarreglu, að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð. Þetta þykir kvenréttindasamtökum og öðrum gagnrýnendum klén afsökun og krefjast þess að ráðherrann víki á meðan mál hans er í rannsókn.

Sjá einnig: Nýr forsætisráðherra í Frakklandi

Benda þau annars vegar á mikilvægi þess að æðsti yfirmaður lögreglu sé hafinn yfir allan grun um glæpsamlegt athæfi og hins vegar á þá óvirðingu í garð þolenda kynferðisofbeldis, sem þessi skipan felur í sér.

Kærður fyrir að nauðga konu árið 2009

Gérald Darmanin var í dómsmálanefnd í Norður-Frakklandi þegar Sophie Patterson-Spatz leitaði til hans og bað hann um að hjálpa sér við að fá skilorðsbundinn dóm niðurfelldan árið 2009. Hún segir hann hafa nýtt sér aðstæður til að nauðga henni, og kærði brotið árið 2017.

Það hefur ekki gengið þrautalaust að fá málið tekið til formlegrar meðferðar og var því ítrekað vísað frá, allt þar til áfrýjunardómstóll í París skikkaði saksóknaraembættið til að hefja rannsókn að nýju í júní síðastliðnum. Fleiri konur hafa ásakað ráðherrann um kynferðisbrot af ýmsu tagi en mál þeirra hafa ekki komist í formlegt kæruferli.

Darmanin hefur ætíð borið af sér allar sakir.