Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír flugu til landsins til að framleiða amfetamín

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Þrír af þeim sex sem voru sakfelld fyrir stórfellda amfetamínframleiðslu í morgun komu sérstaklega frá Póllandi til Íslands til að framleiða fíkniefnin. Þeir byggðu á svokallaðri pólskri aðferð, sem nokkur skipulögð brotasamtök nota og byggja á því að nota efni sem ekki eru á lista yfir ólögleg efni í lögum og reglugerðum. Skipulögð brotastarfsemi skipulagðra brotasamtaka sagði dómari um framleiðsluna.

 

Fimm karlar og ein kona voru dæmd til þriggja og fjögurra ára fangelsisvistar í morgun þegar dómur var kveðinn upp yfir þeim vegna amfetamínframleiðslu í sumarbústað í Borgarfirði í febrúar. Bartlomiej Szelengiewicz, Dawid Stanislaw Dolecki, Jakub Pawel Rzasa og Krzystof Sieracki fengu fjögurra ára dóm hver um sig. Grzegorz Marcin Krzton og Jarislava Davíðsson voru dæmd til þriggja ára fangelsisvistar. Fimm af sex voru handtekin nærri Hvalfjarðargöngum á leið frá bústaðnum þar sem amfetamínið var framleitt.

Þaulskipulögð ákvörðun

 

Dómari segir ljóst að framleiðslan hafi byggst á þaulskipulagðri ákvörðun um framleiðslu á miklu magni af sterku fíkniefni. Dómari segir ljóst að þetta hafi verið skipulögð brotastarfsemi í skipulögðum brotasamtökum.

Jakub Pawel Rzasa var höfuðpaurinn og borgaði flug þriggja manna hingað til lands, þeirra Bartlomiej Szelengiewicz, Dawid Stanislaw Dolecki og Krzystof Sieracki sem allir eiga brotaferil að baki, mislangan. Þeir framleiddu fíkniefnin í sumarbústað í Borgarfirði. Lögregla talar um pólsku aðferðina í gögnum sínum. Hún er þannig að notast er við lögleg efni við framleiðsluna, þótt einhver kunni að vera tilkynningaskyld. Því var hægt að framleiða efnin frá grunni hér á landi og þurfti ekki amfetamínbasa eins og algengast er.

Dagsferð til Íslands með álstrimla

Í dóminum er því lýst hvernig sakborningar nálguðust efnin, hvar þeir keyptu þau og hvernig. Flest var keypt í verslunum hérlendis, svo sem ísóprópanól, steinolía, ediksýra og vítissódi. Efnið nitrostyrene, sem framleiðsluaðferðin er líka nefnd eftir, virðist hafa verið geymt í umbúðum af pólskum barnamat. 

Erfiðara virðist hafa verið að nálgast álstrimla því þeim var flogið hingað til lands. Hingað kom frændi Jakubs með flugi 21. febrúar, afhenti honum þrjú kíló af álstrimlum og flaug aftur úr landi sama dag.

Tveir fyrirtækjaeigendur

Jarislava Davíðsson, eigandi Goldfinger, og Grzegorz Marcin Krzton, eigandi Carwash, komu einnig að framleiðslunni. Hluti efna til framleiðslunnar var geymdur á bónstöðinni og hluti úrgangs fannst í ruslageymslu Goldfinger.

Bæði sögðust saklaus, eins og aðrir sakborningar. Jarislava sagði Jakub hafa misnotað traust sitt og Grzegorz kvaðst ekki hafa vitað hvað stæði til þótt svo hann leyfði einum mannanna að kaupa efni til framleiðslunnar í nafni fyrirtækis síns svo að hann gæti notið afslátta sem hann hafði hjá birgjum sínum. Dómara þótti þó sýnt fram á að þau hefðu komið að undirbúningi framleiðslunnar.

Hætta af niðurhellingu úrgangs

Mennirnir þrír sem komu til landsins til framleiðslunnar voru meðal annars dæmdir fyrir umhverfisspjöll með því að hella niður úrgangi frá framleiðslunni við sumarbústaðinn. Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sagði að hætta hafi verið á aumhverfisspjöllum. Að auki gæti börnum að leik verið hætta búin af efnunum. Var því ákveðið að fjarlægja jarðveg til að minnka skaðann.