Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það biður enginn um að verða háður fíkniefnum“

08.07.2020 - 13:45
Mynd: rúv / rúv
Fjögur félög heilbrigðisstétta innan BHM sendu frá sér yfirlýsingu í gær vegna frumvarps um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna. Frumvarpið  var fellt á Alþingi í lok júní. Félögin harma þá óvissu sem viðkvæmur hópur fíkniefnaneytenda býr við.

„Gagnreynd þekking í nútímasamfélagi gefur ótvírætt til kynna að refsistefna skilar engu en viðheldur jaðarsetningu og kostar mannslíf. Það ætti því að vera forgangsmál að mæta heilsufars- og félagslegum vanda með aðstoð í fyrirrúmi. Það er mikilvægt að tekið verði á fíkniefnaneyslu sem heilbrigðisvanda með áherslu á fræðslu, endurhæfingu og stuðning í stað úrræða í dómskerfinu,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni. 

Kristín Þórðardóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg, og Steinunn Bergmann, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands, ræddu málefni fólks með fíknivanda í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Segir núverandi refsiramma ógn við velferð fíkla

Steinunn segir að félögin fjögur hafi fundið sig knúin til þess að stíga fram í kjölfar þess að frumvarpið var fellt. „Hérna er hópur sem er í hættu á mikilli jaðarsetningu. Maður sér hvernig umtalið í samfélaginu er og við töldum mikilvægt að stíga fram sameiginlega því þetta er eitthvað sem við viljum standa saman að og hvetja stjórnvöld til þess að fara af stað með aðgerðir sem fyrst,“ segir hún. 

Kristín segir að refsingar vegna vörslu á neysluskömmtum fíkniefna hafi mikil áhrif á líf fíkla. Hún telur að innan ríkjandi refsiramma búi fíklar við stöðuga ógn um að verða refsað vegna neyslu sinnar. „Til að mynda þurfa þau að fjármagna þessa neysluskammta. Það er alltaf hætta á að þessir skammtar verði teknir af þeim þannig að þau leita sér síður hjálpar, eins og til dæmis í tengslum við ofbeldi og slíkt,“ segir hún og bætir við að reynslan í öðrum löndum sýni að harðar refsingar fyrir vörslu á fíkniefnum skili sér ekki í minni neyslu. 

Áfallasagan oft löng

Kristín og Steinunn segja að stefna í fíkniefnamálum hafi áður fyrr einkennst af skilningsleysi í garð fólks með fíknivanda. „Áður var þetta svolítið annaðhvort eða. Þegar var verið að setja stefnu, eins og hafa Ísland án fíkniefna árið 2000, var ekkert verið að horfa til þess að fólk verður háð þessum efnum og fólk byrjar jafnvel að vera háð lyfjum sem er ávísað af læknum. Það biður enginn um að verða háður fíkniefnum,“ segir Steinunn. 

Kristín bætir við að fólk sem ánetjast vímuefnum eigi gjarnan langa sögu ofbeldis og áfalla. „Maður sér alveg áfallasöguna sem þetta fólk á að baki. Það kemur flestallt úr mjög erfiðum aðstæðum, miklu ofbeldi, vanrækslu og svo framvegis. Og þessi neysla viðheldur ofbeldinu því að það er „töff“ líf að lifa í þessum heimi. Þetta er bara mikill félagslegur vandi sem þarf að bregðast við. Að hjálpa fólki og styðja það í bata, það er bara það sem við þurfum að einbeita okkur að en ekki að refsa fólki,“ segir hún.

Kristín segir að neyslurými séu mikil bót. „Þar getur fólk komið á öruggan stað og notað efni, fengið leiðsögn og fræðslu. Þannig komum við líka mikið í veg fyrir ofskammta.“