Stjörnum prýtt hlaðvarp fer yfir sögu The Office

Mynd með færslu
 Mynd: The Office - YouTube

Stjörnum prýtt hlaðvarp fer yfir sögu The Office

08.07.2020 - 10:27
Hlaðvarpsþættir um gamanþættina The Office eru væntanlegir á Spotify 14. júlí. Brian Baumgartner, betur þekktur sem Kevin Malone, er stjórnandi hlaðvarpsins og fær til sín gamla vinnufélaga til að rifja upp sögu og gerð þáttanna auk þess sem hann mun ræða við ofuraðdáandann Billie Eilish.

Í hljóðstiklu úr þáttunum virðist Baumgartner hafa fengið til sín lang flesta sem komu að þáttunum í Bandaríkjunum, meðal annars Steve Carell, John Krasinski, Jennu Fischer, Rainn Wilson og Angelu Kinsey svo dæmi séu tekin.

Auk leikaranna mun Baumgartner ræða við höfunda og framleiðendur þáttanna, Greg Daniels, Ben Silverman, Ricky Gervais og Stephen Merchant, um flutninginn frá Bretlandi, leitina að sjónvarpsstöð og hlutverkaskipunina. Þættirnir eru einir þeir vinsælustu í heiminum og eru enn, sjö árum eftir að þeim lauk, á meðal þeirra þátta sem er mest streymt í heiminum. Níu þáttarraðir komu út á árunum 2005-2013 og þættirnir voru meðal annars tilnefndir til Emmy verðlaunanna sex ár í röð. 

En það verður ekki bara rætt við þá sem komu að þáttunum á einn eða annan hátt heldur fá aðdáendur líka sitt pláss í hlaðvarpinu. Fréttir herma að söngkonan Billie Eilish verði sérstakur gestur í hlaðvarpinu en hún hefur talað um það hve mikill aðdáandi hún sé og hafði nú í maí nýklárað að horfa á þættina í fimmtánda sinn. 

 

Hlaðvarpsþættirnir um sögu The Office verða tólf talsins og þrír fyrstu verða gefnir út á Spotify 14. júlí. Í kjölfarið mun einn nýr þáttur koma út á hverjum þriðjudegi. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Leikarar The Office dönsuðu í fjarbrúðkaupi aðdáenda

Tónlist

Billie Eilish afklæðist til að mótmæla líkamsskömmun