
Sagður hafa beðið Samherja að hylja slóð sína
Spillingarlögreglan sagði í gær að samkomulag Namgomar Pesca Namibia við Samherja hafi falið í sér að það félag fengi 25 prósent af greiðslum Samherja fyrir kvóta en Tundavala, félag Hatuikulipis í Dúbaí, fengi 75 prósent. Namgomar Pesca Namibia og Namgomar Pesca Angóla voru að sögn notuð til að komast yfir fé með spilltum hætti.
Hatuikulipi, Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og fleiri krefjast þess að þeim verði sleppt úr gæsluvarðhaldi. Réttað hefur verið um kröfu þeirra í gær og í dag.
Nærri áratugar löng áform
Lögmaður spillingarlögreglunnar sagði í gær að Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hefði lagt á ráðin um það í nærri áratug að hagnast á úthlutun kvóta. Hluti af því hafi verið samstarf við Angóla um kvótaskipti og tengsl við Samherja. Meðal samstarfsmanna hans strax í upphafi hafi verið Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau og frændi James Hatuikulipi sem Esau gerði að stjórnarmanni útgerðarfélags í eigu ríkisins.
Tamson og Esau buðu í gær megnið af eða allar skráðar eignir sínar sem tryggingu gegn því að vera sleppt úr gæsluvarðhaldi. Tamson Hatuikulipi sagði málið sprottið af því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi stjórnandi hjá Samherja og uppljóstrari í málinu, hefði verið fíkniefnaneytandi sem hefði dregið sér fé frá Samherja og notað það til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Tamson sagði að málaferlin væru hluti af hefnd Jóhannesar.
Greiddi verktökum fúlgur fjár í reiðufé
Spillingarlögreglan sagði í morgun að Esau hefði í fyrstu átt ósköp venjulegt þriggja herbergja hús á landeign sinni í Omaheke. Hann hefði síðar ráðist í stórtækar framkvæmdir og greitt verktökum fúlgur fjár í reiðufé. Í málflutningi spillingarlögreglunnar kom jafnframt fram að hluti þess fjár sem sakborningar komust yfir hefði verið notað til að fjármagna kosningabaráttu Swapo, stjórnarflokksins í Namibíu.
Esau þvertók fyrir að hafa tengst spillingu með nokkrum hætti. Hann sagði að Fishcor fyrirtækið hefði verið á barmi gjaldþrots þegar hann fékk Hatuikulipi og fleiri til að taka að sér stjórn þess. Þar með hefði gjaldþroti verið forðað.