Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sá stærsti í 11 daga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jarðskjálftinn sem mældist á Tjörnesbrotabeltinu klukkan 17:41 í dag er sá stærsti þar undanfarna 11 daga. Þetta segir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Skjálftinn var 4,2 og voru upptök hans 12,9 km vest-norðvestur af Gjögurtá, á svipuðum slóðum og yfir 10.000 skjálftar hafa mælst síðan hrinan hófst 19. júní.

Stærstu skjálftarnir urðu á fyrstu dögum hrinunnar og mældust þeir yfir 5 að stærð.

Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hefur Veðurstofu borist talsvert af símtölum og tilkynningum um skjálftann. „Hann hefur fundist á öllu Eyjafjarðarsvæðinu; a Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri.“

Einar Bessi segir erfitt að lesa meira í þennan skjálfta annað en að virknin er enn til staðar. Þetta sé stærsti skjálftinn síðan 27. júní. „Þetta er merki um að hrinan er enn í fullum gangi og að sýnir að við getum áfram átt von á svona stórum skjálftum. Hann er áfram á sama stað, virknin hefur verið að mestu leyti á þessum slóðum,“ segir Einar Bessi.

Fréttin hefur verið uppfærð.