Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Misjöfn túlkun á felldum kjarasamningi flugfreyja

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Forstjóri Icelandair segir félagið ekki geta komið frekar til móts við kröfur Flugfreyjufélags Íslands, eftir að félagsmenn felldu nýjan kjarasamning. Formaður félagsins segir að þeirra kröfur hafi fyrir löngu verið komnar út af samningaborðinu.

Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning til fimm ára í lok júní. Hann var borinn undir félagsmenn FFÍ og var niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni ljós í dag þar sem nærri 73% felldu samninginn. Forstjóri Icelandair segir niðurstöðuna vonbrigði eftir mikla vinnu.

„Það er því miður erfið staða að vera í því félagið getur ekki gengið lengra. Okkar markmið númer 1, 2 og 3 hefur verið að ganga frá endurnýjum samninga við Flugfreyjufélag Íslands. Ef það gengur ekki þá verðum við að sjálfsögðu að skoða aðrar leiðir. Við ætlum að bjarga fyrirtækinu okkar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Svigrúm félagsins er ekkert“

Hvaða aðrar leiðir koma til greina?

„Það er það sem við erum að fara yfir í dag og á morgun og ekki tímabært að fara yfir það á þessu stigi.“

Þú vilt ekki gefa upp hvort það séu viðræður eða verði viðræður við einhverja aðra en Flugfreyjufélagið?

„Það hafa ekki verið viðræður við aðra en Flugfreyjufélag Íslands. Ég get alveg staðfest það. Okkar markmið hefur verið að ganga frá langtímasamningum við Flugfreyjufélag Íslands. En eins og ég sagði áðan, svigrúm félagsins er ekkert,“ segir Bogi Nils.

Kröfur stéttarfélagsins hurfu af borðinu fyrir löngu

Formaður Flugfreyjufélagsins furðar sig á að Icelandair segist ekki geta seilst lengra.

„Í rauninni hurfu kröfur stéttarfélagsins af borðinu fyrir löngu, í raun í upphafi þessa heimsfaraldurs. Við vorum að mæta miklum hagræðingakröfum og það er nokkuð ljóst að félagsmönnum fannst of langt gengið í þeim efnum. Því skil ég ekki hvernig það er hægt að nema staðar þar,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.

Boðað hefur verið til nýs fundar hjá ríkissáttasemjara á föstudag. Bogi ítrekar að Icelandair verði að ná samningum við flugfreyjur fyrir hlutafjárútboð í ágúst. Það sé forsenda fyrir aðkomu stjórnvalda.

Með því besta sem gerist - eða ekkert sérstök kjör?

Það er ljóst að kjarasamningurinn sem var felldur var túlkaður með mismunandi hætti.

„Þetta yrði áfram langeftirsóttasti vinnustaður fyrir þessar starfsstéttir á Íslandi og jafnframt, ef við berum okkur saman við flugfélögin í kringum okkur, að þá yrðu starfskjörin með því besta sem gerist,“ segir Bogi Nils.

„Ég vísa því algjörlega á bug. Við erum félagsmenn í norrænum og evrópskum flutningamannasamtökum og erum með kjarasamninga í Evrópu. Við erum ekkert sérstök að því leyti,“ segir Guðlaug Líney.