Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafnar bótaskerðingu vegna búsetu erlendis

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tryggingastofnun má ekki  skerða sér­staka fram­færslu­upp­bót á þeim for­send­um að bótaþegi hafi búið hluta starfsævi sinn­ar er­lend­is. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykja­vík­ur, í máli konu sem höfðaði mál gegn stofnuninni vegna þessa.

Mbl.is greindi fyrst frá málinu og birtir dóminn, sem enn er ekki komin á vef dómstólasýslunnar.

Dómurinn féll í síðasta mánuði, en konan sem er á sjötugsaldri hefur verið metin með hámarksörorku frá 2011. Hún er ís­lensk­ur rík­is­borg­ari, fædd og upp­al­in hér á landi en bjó tíma­bundið í Dan­mörku áður en hún missti starfsorku.

Konan á ekki rétt á örorku samkvæmt dönskum lögum, en að því er segir í dóminum þá þykir óumdeilt að ástand hennar og aðstæður séu slíkar að hún eigi að fá 100% örorkulífeyri samkvæmt íslenskum lögum. 

Samkvæmt lögum um al­manna­trygg­ing­ar á fólk rétt á full­um bót­um hafi það búið 40 ár á Íslandi á tímabilinu frá 16 og 67 ára ald­urs, en hafi það búið styttra fær það bæt­ur í hlut­falli við bú­setu­tím­ann. Fær kon­an því 78,5% af full­um ör­orku­líf­eyri á Íslandi.

Konan var hins vegar ósátt við að Tryggingastofnun beitti samskonar skerðingu við framfærsluuppbót, en það er uppbót sem veitt er þeim sem ekki geta framfleytt sér á strípuðum örorkubótum. Tryggingastofnun taldi sér hins vegar bera að taka tillit til búsetuhlutfalls hér á landi við útreikning bótanna og að 20 ára hefð væri fyrir því að það væri gert.

Benti verjandi konunnar á að engin heimild væri til slíkrar skerðingar í lög­um um fé­lags­lega aðstoð, held­ur einungis til skerðing­ar á grund­velli tekna og eigna. Mark­mið og til­gang­ur lög­gjaf­ans væri að tryggja öll­um líf­eyr­isþegum lág­marks­fram­færslu.

Á þetta féllst dómurinn og úrskurðaði að ekki væri lagastoð fyrir skerðingunni.„Íþyngj­andi inn­grip í rétt borg­ar­anna sem skort­ir laga­stoð“ geti þannig ekki „fengið rétt­ar­heim­ild­ar­gildi sem venja þrátt fyr­ir langvar­andi fram­kvæmd.“

Var Tryggingastofnun aukinheldur gert að greiða konunni 676.000 krónur auk dráttarvaxta.