Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dagur blandar sér kosningabaráttuna í Póllandi

08.07.2020 - 19:45
Mynd: Skjáskot / Twitter
Aðeins einu til tveimur prósentustigum munar á fylgi frambjóðendanna tveggja sem etja kappi í annarri umferð forsetakosninganna í Póllandi, samkvæmt skoðanakönnunum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur lýst yfir stuðningi við kollega sinn Rafal Trzaskowski.

Dagur er einn þeirra evrópsku borgarstjóra sem tók þátt í auglýsingu til stuðnings framboðs borgarstjórans í Varsjá. „Ég hef kynnst Rafal á borgarstjórafundum og við smullum ansi vel. Og það er í raun ævintýralegt að heyra hann lýsa starfsumhverfinu í samfélagi þar sem ríkisstjórnin beitir sér að mikilli hörku gegn pólitískum andstæðingum,“ segir Dagur.

Það eru ekki mörg fordæmi fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn blandi sér í kosningabaráttu í öðrum ríkjum. Dagur segir að borgir þekki engin landamæri. „Við erum að vinna saman að umhverfismálum, loftslagsmálum en við erum líka að vinna saman að mannréttindamálum og ein að meginástæðum árása ríkisstjórnar Póllands á borgarstjórann í Varsjá er stuðningur hans við mannréttindi hinsegin fólks.  Og ég tel að það sé alveg augljóst að við eigum að berjast fyrir slíku en auðvitað verður maður að velja það vel hvenær maður stígur fram.“

Afar spennandi kosningar

Ljóst er að það stefnir í afar spennandi kosningarkvöld á sunnudaginn. Í fyrri umferðinni var fylgi sitjandi forseta Andrzej Duda nær fjórtán prósentum meira, en samkvæmt skoðanakönnunum er afar mjótt á munum fyrir aðra umferðina. Báðir mælast með um 45-50% fylgi, en aldrei munar meira en einu til tveimur prósentustigum. Dagur segist spenntur fyrir kosningunum og ætlar að fylgjast með þeim. „Ég bara krossa fingur og vona að Rafal vinni á sunnudaginn.“