Þegar ljóst var að nýtt húsnæði væri fyrirhugað ákváðu stjórnendur gömlu Njálsborgar að efna til hugmyndasamkeppni þar sem börnin í skólanum fengju að viðra sínar skoðanir og láta ljós sitt skína sem hönnuðir.
„Þetta er svona skúr fyrir starfsfólkið, og hér eru tröppur fyrir Magdalenu sem býr til matinn í leikskólanum. Hér er svo turn með leynidyrum fyrir bréf,“ segir Óttar Benedikt Davíðsson og bendir einnig á tilraunastöð, gróðurhús og PlayStation-herbergi. Óttar, Jóakim, Trang og Lucy eru meðal þeirra barna sem tóku þátt í hönnunarsamkeppni Njálsborgar um nýjan leikskóla. Börnin segja einnig mikilvægt að í nýja leikskólanum verði vatnsrennibraut og margir hundar.
Kristín R. Einarsdóttir leikskólastjóri segir ýmislegt hafa komið á óvart við úrlausnir barnanna. „Gróðurhúsið kom mér á óvart. Og annað sem kom okkur að óvörum var að þau vildu reykherbergi fyrir fullorðna, en samt reykir enginn af starfsmönnum deildarinnar. Og svo þessi sterka krafa um vatnsrennibraut,“ segir Kristín allsendis óviss um það hvort arkitektarnir verði við óskum barnanna. „Ég veit ekkert um það en ég vona að það verði stór rennibraut.“