Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ástráður sækir um við Landsrétt í fimmta sinn

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Ástráður Haraldsson héraðsdómari er einn sjö umsækjenda um tvö laus embætti dómara við Landsrétt. Umsóknarfrestur rann út á mánudag. Þetta er í fimmta sinn sem Ástráður sækir um dómarastöðu við Landsrétt.

Frá þessu er sagt í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Umsækjendur um embættin tvö eru:

  • Ástráður Haraldsson, héraðsdómari
  • Hildur Briem, héraðsdómari
  • Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður
  • Jón Höskuldsson, héraðsdómari
  • Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari
  • Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt
  • Stefán Geir Þórisson, lögmaður

Ólögmætar skipanir

Dómsmálaráðuneytið auglýsti embættin laus til umsóknar 19. júní síðastliðinn. Dómarastöðurnar tvær eru stöður Sigurðar Tómasar Magnússonar sem hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands og stöðu Arnfríðar Einarsdóttur. Arnfríður var skipuð dómari við Landsrétt í síðasta mánuði eftir að hafa verið leyst úr embætti dómara við Landsrétt.

Arnfríður var skipuð dómari við Landsrétt á ný í júní í stöðu Ásmundar Helgasonar sem hafði losnað. Hann var eins og Arnfríður einn fjögurra sem ekki gátu dæmt í málum eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í mars í fyrra. Ásmundur var skipaður í aðra stöðu dómara við Landsrétt 1. apríl.

Ástráður Haraldsson sækir nú um í fimmta sinn. Síðast þegar hann sótti um var hann metinn hæfastur ásamt Arnfríði sem hlaut stöðuna.

Hæfisnefnd dómsmálaráðherra tekur nú við umsóknunum sjö og skilar svo mati sínu til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem skipar í stöðurnar tvær.