Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Arnaldur er búinn að drepa hér manneskju“

Mynd: RÚV / RÚV

„Arnaldur er búinn að drepa hér manneskju“

08.07.2020 - 13:34

Höfundar

Hólavallagarður er sögufrægur kirkjugarður fyrir margra hluta sakir. Það hvílir bæði þjóðþekkt fólk og frægir sakamenn, auk þess sem hans er víða getið í íslenskum skáldskap. Í garðinum ríkir friður og kyrrð og þangað sækja sér margir andlega íhugun eða innblástur. Sumarlandinn kíkti við.

Kirkjugarðar eru fyrst og fremst fyrir þá sem enn tóra, að sögn Heimis Björns Janussonar, umsjónarmanns Hólavallagarðs. Þangað koma fleiri lifandi en látnir að hans sögn og njóta þess að spássera um. „Fólk kemur hingað í ýmsum erindagjörðum. Sumir koma til að slaka á, sinna garðinum eða leiðum en sumir líka til að upplifa söguna. Hún verður lifandi þegar þú sérð grafir sögufrægra persóna,“ segir Heimir. Gurrí í Sumarlandanum fór í göngutúr um garðinn með Heimi og fræddist um sögu kirkjugarðsins og þeirra sem þar hvíla.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hér hvílir nafngreindur karl og kona hans.

Hér hvílir Jón Jónsson og „kona hans“

Það var fyrst jarðsett í Hólavallagarði árið 1838 og í honum hvíla ýmis mektarmenni. En einnig ýmsar kjarnakonur þó þeirra sé oft ekki getið með nafni á legsteinum. Gjarnan eru hjón til dæmis grafin undir nafni og starfsheiti mannsins, en konan einungis nefnd: Kona hans. „Þetta segir til dæmis til um menntun kvenna, þeir voru prestar eða sýslumaður og þær kona hans því þær voru heimavinnandi og höfðu ekki titil,“ segir Heimir. 

Mátti ekki höggva mann í kirkjugarði

Hann segir algengt að listamenn heimsæki garðinn til að sækja sér innblástur. „Einn af stærri listamönnum þjóðarinnar byrjar morgnana á að hlaupa hér í gegnum garðinn,“ segir Heimir leyndardómsfullur. Kirkjugarðsins sé einnig getið í skáldsögum íslenskra höfunda. „Arnaldur Indriðason er búinn að drepa hér manneskju, Sjón skrifaði Mánastein sem gerist að hluta hér, Gerður Kristný með Garðinn.“

Í garðinum finna margir frið og ró þó að það sé mikil umferð í kringum hann. Ætli það sé vegna gróðursins eða vegna þess að kirkjugarðurinn er helgur staður? „Það er öryggið í því að þetta er afmarkað svæði. Það gildir enn að þú ert í friði og ró og það þykir ekki tiltökumál að þú sért að rölta hér án sýnilegs tilgangs,“ segir Heimir. „Í kirkjurétti til forna giltu líka lög um kirkjugrið í garðinum. Það mátti ekki drepa þig í kirkjugarði.“

Tengdar fréttir

Norðurland

„Þarft að vera sérstök tegund af hálfvita“

Menningarefni

Landsvirkjun réð særingamann til að kveða niður draug