Andlitsgrímur verða skylda í Katalóníu

08.07.2020 - 15:59
epa08443359 Several people wearing protective face masks keep a social distance as they travel in the subway, in Barcelona, Catalonia, Spain on 25 May 2020 during the first day of phase 1 of deescalation amid coronavirus pandemic in Barcelona. Madrid, Barcelona and Castilla Leon begin phase 1 of the desescalation, while the rest of the country is on phase 2.  EPA-EFE/Marta Perez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnvöld í Katalóníu ætla að skylda alla í héraðinu til að bera andlitsgrímur á opinberum stöðum til að koma í veg fyrir kórónuveirusmit. Þeir sem ekki hlýða verða sektaðir.

Spánverjar eiga að vera með andlitsgrímur ef þeir geta ekki virt eins og hálfs metra fjarlægðartakmörk við annað fólk, svo sem í almenningsvögnum. Katalóníumenn ákváðu í dag að ganga skrefinu lengra og skylda alla, jafnt heimamenn sem gesti, til að bera andlitsgrímur á opinberum stöðum utan dyra sem innan. Tilskipunin gildir frá og með morgundeginum. Þeir sem ekki hlýða verða sektaðir um hundrað evrur, um það bil 15.700 krónur.

Quim Torra, forseti heimastjórnarinnar, sagði þegar hann kynnti þessa ákvörðun í dag að margir væru orðnir kærulausir og reyndu að komast hjá því að vera með grímur. Kórónuveirusmitum hefur fjölgað sums staðar í héraðinu. Á laugardag var tvö hundruð þúsund íbúum í Lérida vestan við Barselóna skipað að halda sig innan dyra. Þá höfðu þar greinst yfir þúsund tilfelli COVID-19 á um það bil einum mánuði. Tilfellin voru 64 síðastliðinn sólarhring.

Fernando Simon, sóttvarnalæknir Spánar, sagði í fjölmiðlum á mánudag að hann hefði áhyggjur af fjölgun COVID-19 tilfella í Katalóníu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi