Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um tvöþúsund fjölskyldur hafa fengið mataraðstoð

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Mun meira hefur verið um matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands frá því í mars og síðustu mánuði en á sama tíma fyrir ári. Um 300 matarpokar eru afhentir á dag, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur. Ástandið hafi verið mjög erfitt síðan farsóttin braust út.

Ásgerður segir að hver fjölskylda fái þrjá fulla poka af mat í senn. Ef vel ætti að vera þyrfti að aðstoða þúsund heimili í júlí.

Hún segist jafnframt hafa þungar áhyggjur af komandi hausti og vetri enda sé fjármagn af skornum skammti en þörfin brýn. Fólk og fyrirtæki styði mataraðstoðina en opinber stuðningur sé afar takmarkaður.

Þegar samkomutakmarkanir voru settar á í mars annaðist Landsbjörg útkeyrslu um 670 matargjafa. Síðan þá hafa 1990 heimili í Reykjavík fengið aðstoð. Í Reykjanesbæ fái 50-60 heimili mataraðstoð í hverri úthlutun.

Fólk sem þarf á aðstoð að halda skráir sig á netinu fyrir fram. Ásgerður Jóna Flosadóttir vildi að hægt væri að hjálpa öllum þeim sem sækja um en að hámarki sé hægt að aðstoða 200 á dag. Hún kveðst finna að fólk sæki ekki alltaf um þótt þörfin sé mikil.