„Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“
Ólafur byggði sér fyrst fjárhús sem barn í Vogahverfinu. Síðar byggði hann annað fjárhús ásamt félaga sínum á menntaskólaárunum, áður en hann hélt til náms í búfræðum í Wales. Eftir að hann kom heim frá námi tóku við hin svokölluðu sauðfjárstríð, milli borgaryfirvalda og þeirra sem vildu halda kindur innan borgarmarkanna.