Síðasti fjárbóndinn í borginni

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Síðasti fjárbóndinn í borginni

07.07.2020 - 15:24

Höfundar

Ólafur Dýrmundsson heldur kindur við heimili sitt í Seljahverfinu í Breiðholti.

„Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap. 

„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“ 

Ólafur byggði sér fyrst fjárhús sem barn í Vogahverfinu. Síðar byggði hann annað fjárhús ásamt félaga sínum á menntaskólaárunum, áður en hann hélt til náms í búfræðum í Wales. Eftir að hann kom heim frá námi tóku við hin svokölluðu sauðfjárstríð, milli borgaryfirvalda og þeirra sem vildu halda kindur innan borgarmarkanna.

Mynd með færslu
 Mynd: hallaharðar

„Hér geisaði stríð á árunum upp úr 1960 og fram að 1970. Sáttin var í raun sú að Reykjavíkurborg lét fjáreigendafélagið hafa land í Fjárborg í Hólmsheiði,“ segir Ólafur. Hann tók virkan þátt í baráttunni, innblásinn af stúdentauppreisninni í París. „Reykjavík var á þessum tíma að breytast hratt úr bæ í borg og því fylgdu ákveðnir vaxtaverkir. Okkur þótti mjög leitt að missa landið okkar í Hólmsheiði á sínum tíma, en svo fengum við það aftur og ég er sáttur við alla þessa menn sem ég var að deila við. En ég veit að ég var ekki vel þokkaður á þessum tíma.“

Ólafur er enginn nýgræðingur þegar kemur að fjárbúskap enda einn af frumkvöðlum borgarbúskapar hér á landi. Hann starfaði hjá Bændasamtökum Íslands frá stofnun og áður hjá fyrirrennara samtakanna, Búnaðarfélagi Íslands, fyrst sem landnýtingarráðunautur en síðar sem beitar- og  sauðfjárráðunautur. Síðustu tuttugu árin var Ólafur ráðunautur lífræns búskapar og landnýtingar auk fleiri verkefna. Ólafur hlaut fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu landbúnaðar árið 2018.

Rætt var við Ólaf í Sumarmálum á Rás1 og hægt er að hlusta á samtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.