Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýir vegir á Vestfjörðum geta haft áhrif á verndarsvæði

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson
Miklar samgöngubætur fyrir víðfeðmt svæði felast í lagningu nýrra vega um Dynjandisheiði og frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi á Dynjandisheiði. Umhverfisáhrif veglagningarinnar geta þó verið veruleg.

Ætlunin er að leggja heilsársvegi, með bundnu slitlagi og uppbyggða með tilliti til snjóalaga á svæðinu. Samgöngur að vetrarlagi verða því mun auðveldari en verið hefur.

Vegurinn um Dynjandisheiði er að hluta innan friðlýsts svæðis fossins Dynjanda. Hann er mestur fossa á Vestfjörðum, hefur verið verndaður frá 1981 og þykir sérlega fagur.

Nýr vegur í námunda við fossinn geta haft áhrif á verndarsvæðið umhverfis hann. Tvær hugmyndir eru uppi en annar kosturinn samræmist engan veginn verndarskilmálum svæðisins. Skipulagsstofnun bendir á það en tekur annars ekki afstöðu til valkostanna.

Auk þessa snertir lagning vegar á svæði friðlandsins Vatnsfjarðar, Geirþjófsfjarðar og að hluta verndað svæði í Breiðafirði. Einnig stendur til að vegurinn liggi um verndað svæði innan Ísafjarðarbæjar.

Veglagningin gæti þannig haft áhrif á vistkerfi, náttúru- og menningarminjar. Að mati Skipulagsstofnunar vegur stytting vestfjarðarvegar með þverun Vatnsfjarðar léttar en þær heildarsamgöngubætur sem verkið allt felur í sér og umhverfisáhrifin á svæðið allt.

Álit stofnunarinnar er að besti og eini kosturinn í stöðunni sé að vegurinn um Vatnsfjörð fylgi núverandi veglínu. Þó beri að sjá til þess að vegurinn verði hannaður með það í huga að draga eins og verða má úr áhrifum á verndarsvæði fjarðarins.

Auk þess sem að framan greinir breytist ásýnd þriggja innfjarða Suðurfjarða Arnarfjarðar við vegaframkvæmdirnar sem geta einnig haft áhrif á lífríki þeirra.

Vegna þessa leggur Vegagerðin fram fjölmargar aðgerðir til að bregðast við sem ásamt Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun ber nú að taka afstöðu til fyrirhugaðrar veglagningar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV