Landspítali getur ekki tekið við sýnatöku á þriðjudag

07.07.2020 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Útilokað er að Landspítalinn geti tekið við á þriðjudag þegar Íslensk erfðagreining hættir að greina sýni í skimun fyrir kórónaveirunni á landamærum, að sögn forstöðumanns rannsóknarþjónustu Landspítalans. Mest gæti Landspítalinn greint nokkur hundruð sýni á sólarhring. Íslensk erfðagreining hefur greint hátt í 2000 sýni á sólarhring.

Stjórnvöld vinna að því hörðum höndum að finna lausn á þeirri krísu sem upp er komin eftir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skýrði frá því í gær að hann myndi hætta þátttöku í verkefninu. Forsætisráðherra situr nú í hádeginu á fundi með almannavarnaþríeykinu, Ölmu Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni.

Þríeykið átti jafnframt fund í morgun með fulltrúum rannsóknarþjónustu Landspítalans þar sem reynt var að teikna upp leiðir til þess að hægt verði að halda áfram skimun á þriðjudaginn. Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknarþjónustunnar segir þær allar mjög flóknar í framkvæmd með svona stuttum fyrirvara. Æskilegast væri að Íslensk erfðagreining héldi áfram að greina sýni þar til Landspítalinn verði í stakk búinn að taka við. 

„Allavega eins og staðan er núna þá sjáum við okkur ekki fært að halda þessu áfram án þeirrar aðstoðar.  Íslensk erfðagreining hefur algjörlega séð um alla greiningu vegna skimunar á landamærum,“ segir Maríanna.

Hún segir að breytingar á húsnæði rannsóknardeildar standi nú yfir. Beðið sé eftir rannsóknartæki sem sé nauðsynlegt til að halda uppi sömu afköstum og verið hafa hingað til. Rannsóknardeildin sinni mjög mörgum öðrum verkefnum á sama tíma. Hún hafi ekki nákvæma tölu yfir hve mörg sýni Landspítalinn geti afgreitt á sólarhring. „En það eru einhver hundruð sýna sem við gætum sinnt,“ segir hún.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi