Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.
Rúnar Geirmundsson er þrefaldur meistari í ólyfjaprófuðum kraftlyftingum í erlendum keppnum og með um 150 met innanlands á bakinu, ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og söngvari. Þegar Gunnar Ingi ræddi við Rúnar var hann að undirbúa sig undir það að taka þátt í keppninni Sterkasti maður Íslands. „Þetta er erfitt sport, þetta er miklu erfiðara en kraftlyftingar,“ segir Rúnar. „Mér hefur aldrei verið illt í kraftlyftingum en núna er mér illt alls staðar.“
Rúnar varð meistari í kraftlyftingum árið 2017 á IPL-mótinu en hann segir sigurinn ekki hafa verið eins og hann bjóst við. Það hafi ekki fylgt sigrinum sú sæluvíma sem hann hafði búist við og hann hafi raunar verið frekar bitur en sætur.