Engin sæluvíma eftir sigur á heimsmeistaramóti

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Geirmundsson

Engin sæluvíma eftir sigur á heimsmeistaramóti

07.07.2020 - 15:15
Rúnar Geirmundsson, kraftlyftingarmaður, segir titilinn á IPL-mótinu árið 2017 ekki hafa fært honum þá sæluvímu sem hann hafði búist við. Rúnar ræddi þetta og fleira í hlaðvarpinu Þungarokk og þungar lyftur þar sem Gunnar Ingi Jones fjallar um mörkin milli rokktónlistar og kraftlyftinga.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.

Rúnar Geirmundsson er þrefaldur meistari í ólyfjaprófuðum kraftlyftingum í erlendum keppnum og með um 150 met innanlands á bakinu, ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og söngvari. Þegar Gunnar Ingi ræddi við Rúnar var hann að undirbúa sig undir það að taka þátt í keppninni Sterkasti maður Íslands. „Þetta er erfitt sport, þetta er miklu erfiðara en kraftlyftingar,“ segir Rúnar. „Mér hefur aldrei verið illt í kraftlyftingum en núna er mér illt alls staðar.“

Rúnar varð meistari í kraftlyftingum árið 2017 á IPL-mótinu en hann segir sigurinn ekki hafa verið eins og hann bjóst við. Það hafi ekki fylgt sigrinum sú sæluvíma sem hann hafði búist við og hann hafi raunar verið frekar bitur en sætur. 

Rúnar ver miklum tíma með Hafþóri Júlíusi Björnssyni. Þeir æfa saman og svo tekur Rúnar einnig upp myndbönd fyrir hann. Rúnar fer meðal annars yfir það í þættinum hvernig Hafþór Júlíus fór að því að lyfta 501 kg í réttstöðulyftu.

Í hlaðvarpsþættinum Þungarokk og þungar lyftur fræðumst við betur um samspil heilsu og tónlistar og hvort það sé einhver tenging þar á milli. Gunnar Ingi fær til sín góða gesti sem tengjast lyftingum og rokki.

Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan, í öllum helstu hlaðvarpsveitum og á Spotify. Færslan var uppfærð til að gera grein fyrir því að Rúnar keppir í ólyfjaprófuðum kraftlyftingum sem ekki heyra undir ÍSÍ.